Fara í brunna í dag í leit að olíuleka

Olíumengun kom upp í Grafarlæk í Grafarvogi. Heilbrigðiseftirlitið og Veitur …
Olíumengun kom upp í Grafarlæk í Grafarvogi. Heilbrigðiseftirlitið og Veitur leita uppruna olíulekans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Veitna ohf. hafa verið að störfum um helgina vegna olíumengunar í Grafarlæk í Grafarvogi. Leitað hefur verið að uppsprettu mengunarinnar og í dag verður farið í brunna og reynt að rekja lekann.

„Við erum ekki búin að fara í morgun en ég fór í gær og þá var þetta bara orðin smá slikja á vatninu en það verður haldið áfram að leita í dag,“ segir Rósa Magnúsdóttir, umhverfisstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Miðað við þær aðstæður sem voru í læknum um miðjan daginn í gær telur Rósa vísbendingar vera um að atburðurinn sé liðinn hjá enda hafi dregið töluvert úr olíunni í læknum. Áfram verði þó leitað að uppruna mengunarinnar.

Það háir leitinni hve svæðið er stórt auk þess sem mörg fyrirtæki eru á svæðinu þaðan sem hugsanlega gæti hafa lekið olía. Heilbrigðiseftirlitið biðlar til fyrirtækja í grenndinni að kanna vel hjá sér aðstæður, skoða niðurföll og athuga olíuskiljur.

„Það verður haldið áfram að leita að þessari olíumengun og við náttúrlega kíkjum þarna upp eftir. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta væri liðinn atburður núna og við reynum að finna út úr því. Við erum búin að biðla til fyrirtækja að skoða hjá sér olíuskiljur á plönum og svona og við verðum bara að fylgjast með áfram. Það verður farið í brunna í dag að leita,“ segir Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert