Gjöreyðilagðist í eldinum

Golfbíll í eigu Golfklúbbs Mosfellsbæjar gjöreyðilagðist þegar eldur kom upp …
Golfbíll í eigu Golfklúbbs Mosfellsbæjar gjöreyðilagðist þegar eldur kom upp í bílnum. Ljósmynd/Logi Kristjánsson

Golfbíll í eigu Golfklúbbs Mosfellsbæjar gjöreyðilagðist þegar eldur kom upp í bílnum í hádeginu í dag. Starfsmaður golfklúbbsins var að nota bílinn þar sem hann ferðaðist á milli staða við garðslátt.

 „Hann er bara að setja hann í gang þegar hann finnur fyrir hita og það kviknar í rauninni bara í vélinni,“ segir Hekla Daðadóttir, starfsmaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar, í samtali við mbl.is. Að sögn Heklu hoppar starfsmaðurinn strax af bílnum, finnur slökkvitæki og hefur samband við Neyðarlínu og golfklúbbinn.

„Þetta voru bara hárrétt viðbrögð hjá honum,“ segir Hekla og bætir við að slökkvilið hafi komið á vettvang, slökkt eldinn og bíllinn hafi svo verið dreginn á haugana. Starfsmaðurinn sem var á bílnum meiddist ekki en bílinn er gjörónýtur að sögn Heklu.

Að sögn Heklu kom eldur upp í golfbílnum þar sem starfsmaðurinn hafði verið að slá gras nálægt Lágafellslaug í Mosfellsbæ. „Við vitum ekki hvað var að þannig séð, gamall bíll sem klikkar bara,“ segir Hekla og bætir við að heppilegt sé að enginn hafi slasast.

Golfbíllinn brann rétt hjá Lágafellslaug í Mosfellsbæ.
Golfbíllinn brann rétt hjá Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Logi Kristjánsson
Starfsmaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar fann hita koma upp þegar hann setti …
Starfsmaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar fann hita koma upp þegar hann setti bílinn í gang. Ljósmynd/Logi Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert