Kanna hvort mistök hafi verið gerð af hálfu barnaverndar

Barnaverndarstofa ætlar að kanna hvort eitthvað hefði betur mátt fara …
Barnaverndarstofa ætlar að kanna hvort eitthvað hefði betur mátt fara í tilfellum stúlknanna. mbl.is/Golli

Barnaverndarstofa ætlar að nýta sér eftirlitsheimildir stofnunarinnar til að kanna hvort mistök hafi verið gerð að hálfu barnaverndar í máli nokkurra stúlkna sem beittar voru kynferðisofbeldi af hálfu afa síns á árunum 1997 til 2008. Maðurinn var fyrr í júlí dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir brot sín.

Ávirðingar hafa komið fram í fjölmiðlum að mál einnar stúlkunnar hafi verið látið niður falla við flutning fjölskyldunnar úr sveitarfélaginu. Jafnramt hefur verið gagnrýnt að málið hafi ekki verið tekið fastari tökum og komið í réttan farveg innan barnaverndarkerfisins. Í ljósi alvarleika og eðlis umrædds máls telur Barnaverndarstofa rétt að kanna þessa þætti málsins sérstaklega, að fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni.

„Mun þá koma til skoðunar hver viðbrögð nefndarinnar og starfsmanna hennar voru við tilkynningu um málefni barnsins og hvaða farveg málinu var komið í. Þá verður einnig sérstaklega skoðað hvað varð til þess  að máli barnsins var lokað hjá nefndinni og hvort um hafi verið að ræða athafnaleysi eða jafnvel vanrækslu að hálfu nefndarinnar,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Jafnramt er tekið fram að varhugavert er að draga of víðtækar ályktanir í þessum efnum án frekari athugunar.

Einnig er tekið framað margt hafi breyst til batnaðar í barnaverndarmálum á Íslandi frá þeim tíma sem brotin áttu sér stað.

Þá er í tilkynningunni vísað til þess að í dómnum komi fram að að starfandi barnageðlæknir á svæðinu hafi haft rökstuddan grun um alvarleg brot gegn einni stúlknanna. Í málinu hafi legið fyrir læknabréf, sem er eitt af sönnunargögnum málsins, þar sem fram kemur að hann hafi búið yfir nákvæmum upplýsingum um langvarandi kynferðisofbeldi gegn barninu.

„Af lestri dómsins verður ekki séð að viðkomandi barnageðlæknir hafi komið þeim upplýsingum til barnaverndaryfirvalda svo sem skylt er að lögum. Barnaverndarstofa mun beina þeim tilmælum til Embætti Landlæknis að hann láti kanna þann þátt málsins sérstaklega.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert