TF-SIF stóð smyglara að verki

Skútan var um 20 metra löng að sögn Jakobs.
Skútan var um 20 metra löng að sögn Jakobs. Skjáskot/FRONTEX

TF-SIF, flug­vél Land­helg­is­gæsl­unn­ar, tilkynnti Landa­mæra- og strand­gæslu­stofn­un Evr­ópu (Frontex) um skútu á Miðjarðarhafi sem sigldi með 50 flóttamenn á leið til Ítalíu. Tveir smyglarar voru handteknir í kjölfarið. 

Þetta kemur fram á Twitter-reikningi FRONTEX en TF-SIF sinnir landa­mæra­eft­ir­liti á Miðjarðar­hafi fyr­ir Frontex þessa dagana og verður vélin á Ítalíu til loka ágústmánaðar. 

„Við komum hérna á föstudaginn og fórum í eftirlitsflug á laugardag. Í þessu flugi komum við auga á grunsamlega skútu sem við tilkynntum til stjórnstöðvar sem er í Róm. Við tókum myndir og héldum för áfram,“ segir Jakob Ólafsson flugstjóri. „Síðan var óskað eftir að við færum aftur að skútunni til þess að fylgjast með henni þangað til breskt eftirlitsskip væri komið í færi.“

Jakob segir að þeir hafi gómað skútuna langt undan ströndum Ítalíu. Íslenska áhöfnin átti frídag í dag en heldur uppteknum hætti á morgun yfir Miðjarðarhafi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert