Þjálfun slökkviliðsins skilaði sér

Slökkvilið að störfum á vettvangi. Mikill og heitur reykur gaus …
Slökkvilið að störfum á vettvangi. Mikill og heitur reykur gaus upp og húsið fylltist af reyk þegar málmurinn komst í samband við steypuna. Ljósmynd/Víkurfréttir Hilmar Bragi

Þeir starfsmenn kísilmálmsmiðju United Silicon í Helguvík sem voru á vakt í nótt, þegar 1600 °C heitur kísilmálmur rann niður á gólf eftir að ker sem verið var að tappa á yfirfylltist, brugðust hárrétt við. Kristleifur Andrésson, yfirmaður öryggis- og umhverfismála hjá United Silcon, segir atvikið í nótt sýna að sú þjálfun sem starfsmenn hafi fengið hjá slökkviliði í viðbrögðum við eldi og öðru slíku sé að skila sér.

Það var um þrjúleytið í nótt er verið var að tappa málmi úr ljósbogaofninum í ker, svo nefndar deiglur, að deiglan yfirfylltist og sjóðheitur málmurinn rann niður á gólf. „Þegar svo heitur málmur kemst í samband við steypu þá gýs upp gríðarlega mikill og heitur reykur þannig að húsið fylltist af reyk. Starfsmenn brugðust hárrétt við, slökktu á ofninum, rýmdu húsið og kölluðu á slökkvilið og lögreglu,“ segir Kristleifur.

Reykurinn í húsinu hafi síðan minnkaði á meðan að slökkviliðið var á leiðinni og þá hafi starfsmenn farið aftur inn og náð tökum á ástandinu án aðstoðar slökkviliðs. Einn bíll frá slökkviliðinu var þó á vett­vangi um tíma starfs­mönn­um til halds og trausts.

Þekkt vandamál að ker yfirfyllist

„Stóra málið í þessu er að það meiddist enginn og starfsmenn brugðust hárrétt við og þurftu ekki aðstoð viðbragðsaðila,“ bætir hann við.

Heitur málmurinn bræddi bæði glussaslöngur og rafmagnskapla þegar hann rann niður á gólfið og sló þá rafmagn út á hluta gólfsins. Kristleifur segir nú þurfa að vinna að viðgerðum og fara yfir slöngur og búnað til að tryggja að allt sé í góðu standi þegar ofninn verður ræstur aftur, en það ferli geti tekið 2-3 daga.

Hann segir alþekkt í kísilmálmverksmiðjum að ker geti yfirfyllst með þessum afleiðingum, en vissulega vilji menn forðast að slík atvik eigi sér stað. „Sem betur fer þá var hins vegar búið að þjálfa starfsmenn í viðbrögðum við slíkum atvikum.“

Eldur kom upp í verksmiðjunni í apríl á þessu ári og var einnig slökkt á ljósbogaofninum eftir það atvik. Kristleifur segir rúmlega 30 atriði hafa verið lagfærð í kjölfar þeirrar stöðvunar og að eftir rekstur ofnsins gengið vel eftir að kveikt var á honum á ný, en verksmiðun hefur verið undir eftirliti Umhverfisstofnunnar. „Við höfum komist yfir marga þröskulda,“ segir hann og bætir við að rekstur svona fyrirtækis feli í sér endalausar umbætur og þannig þurfi það að vera þannig.

Ekki er enn farið að meta tjónið sem varð í nótt að sögn Kristleifs. „Það er verið að kæla málminn sem fór á gólfið, áður en hægt verður að fjarlægja hann. Í kjölfarið verða síðan skemmdir skoðaðar og farið að vinna að viðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert