Verið að ganga frá lausum endum

Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal.
Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rannsókn lögreglu á dauða Arnars Jónssonar Aspar er langt komin. Einn maður situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa orðið Arnari að bana 7. júní síðastliðinn.

Sveinn Gestur Tryggvason sætir gæslu­v­arðhaldi til 21. júlí en Grímur Grímsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á von á því að farið verði fram á lengra varðhald yfir honum. Áður hafði Jón Trausti Lúthersson verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en sá úrskurðaður var felldur úr gildi.

Það er verið að ganga frá lausum endum og síðan verður málið sent til héraðssaksóknara. Hvort það gerist í vikunni eða næstu viku er ekki alveg orðið ljóst,“ segir Grímur þegar hann er spurður hvernig rannsókn gangi.

Samkvæmt gögnum málsins komu þeir Sveinn Gest­ur og Jón Trausti að heim­ili Arn­ars Jóns­son­ar Asp­ar síðdeg­is 7. júní í fé­lagi við þrjá karla og eina konu. Eft­ir að Arn­ar hafði hent kústi í aðra þeirra bif­reiða, sem komu­menn voru á, sótti hann járn­rör og fór að bif­reiðunum. Stigu þá Jón Trausti og Sveinn út úr bif­reiðinni og gengu að Arn­ari. Tók Jón Trausti járn­rörið af Arn­ari en við það féll hinn síðar­nefndi í jörðina. Hélt Sveinn Arn­ari þar í hálstaki í marg­ar mín­út­ur og sló hann ít­rekað í and­litið. Var Arn­ar úr­sk­urðaður lát­inn klukk­an 19:14 um kvöldið.

Fram kom í bráðabirgðaniður­stöðu krufn­ing­ar að þvinguð fram­beygð staða Arn­ars í lang­an tíma hafi leitt til mik­ill­ar minnk­un­ar önd­un­ar­getu, sem að lok­um leiddi til stöðutengdr­ar köfn­un­ar og láts hans. Sagði í niður­stöðunni að við þess­ar kring­um­stæður væri hægt að líta á hálstakið sem aðalþátt­inn „í því sem leiddi til láts“ Arn­ars.

Spurður að því hvort Sveinn sé grunaður um að hafa einn ráðið Arnari að bana vegna þess að hann er einn í gæsluvarðhaldi segir Grímur að það segi sig að einhverju leyti sjálft að það sé svoleiðis. „Við sendum rannsóknargögnin til héraðssaksóknara og hann tekur ákvörðun um ákæru eða ekki á grundvelli þeirra.“

Grímur tekur það fram að þrátt fyrir að hitt fólkið sé ekki í gæsluvarðharðhaldi hafi réttarstaða þeirra ekki breyst. „Það blasir við að þau eru ekki talin eiga hlut í manndrápinu sjálfu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert