Hætta á vatnavöxtum

Svona er úrkomuspáin á landinu kl. 18 í dag.
Svona er úrkomuspáin á landinu kl. 18 í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra biður ferðamenn um að hafa varann á í kringum ár og læki vegna hættu á vatnavöxtum í því vatnsveðri sem nú gengur yfir landið. Í tilkynningu segir að svo virðist sem veðurspáin sé að ganga eftir en spáð er mikilli rigningu um landið sunnan- og suðaustanvert fram á morgundaginn. 

Veðurvefur mbl.is.

Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum. Varað er við vexti í ám og lækjum í kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. „Ferðamenn eru beðnir um að hafa varann á í kringum ár og læki á svæðinu,“ segir í viðvörun almannavarna.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að rigningunni sunnanlands muni fylgja hlýtt loft og því verði talsverðir vatnavextir frá því í kvöld, einkum á Fjallabaki og í Þórsmörk.

Veðurstofan varar við stormi og er viðvörun veðurfræðings orðrétt:

Búist er við stormi við suðvesturströndina og á hálendinu upp úr hádegi með hvössum vindhviðum við fjöll, sem geta verið varasöm farartækjum sem taka á sig mikinn vind. Einnig verður talsverð rigning suðvestanlands og mikil rigning á Suðausturlandi og undir Eyjafjöllum síðdegis og fram á nótt með tilheyrandi vatnavöxtum í ám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert