Skipverjar Polar Nanoq koma fyrir dóm

Þinghald í dómsmáli því, sem höfðað var vegna andláts Birnu …
Þinghald í dómsmáli því, sem höfðað var vegna andláts Birnu Brjánsdóttur hófst klukkan níu í morgun. mbl.is/Ófeigur

Þinghald í dómsmáli því, sem höfðað var vegna andláts Birnu Brjánsdóttur, hefst núna upp úr klukkan níu, rétt rúmum sex mánuðum eftir örlagaríka atburði laugardagsmorgunsins 14. janúar.

Ákærður er í málinu Thomas Fredrik Møller Olsen, grænlenskur ríkisborgari sem fæddur er árið 1987, fyrir að hafa svipt Birnu lífi.

Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness og fyrirhugar ákæruvaldið að taka skýrslur af sjö skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq í dag, en Olsen var í áhöfn togarans sem var við bryggju í Hafnarfirði þessa helgi í janúar.

Í ákæru héraðssaksóknara er hann sagður hafa veist með ofbeldi að Birnu, slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi hennar, „og í framhaldinu, á óþekktum stað, varpaði ákærði Birnu í sjó eða vatn, allt með þeim afleiðingum að Birna hlaut punktblæðingar í augnlokum, táru og glæru augnlokanna og innanvert á höfuðleður, þrýstingsáverka á hálsi, þar á meðal brot í vinstra efra horn skjaldkirtilsbrjósks, nefbrot og marga höggáverka í andlit og á höfuð og drukknaði [...]“

Lík Birnu fannst rúmri viku síðar, sunnudaginn 22. janúar, í fjörunni rétt vestan við Selvogsvita í Selvogi í Ölfushreppi.

Ofangreind háttsemi er í ákærunni talin varða við 211. grein almennra hegningarlaga, en þar segir að sá skuli sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár, eða ævilangt, sem sviptir annan mann lífi.

Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert