Slökktu á netinu og lugu um vélarbilun

Skipverjar Polar Nanoq í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Skipverjar Polar Nanoq í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Ófeigur

Fyrsti stýrimaður á Polar Nanoq, sá fimmti sem kallaður var til vitnisburðar í dómsmálinu um andlát Birnu Brjánsdóttur í dag, sagði ákærða Thomas Olsen hafa sagt að tvær stúlkur hefðu verið með honum og Nikolaj Olsen í bílnum aðfaranótt laugardagsins 14. janúar.

Teknar verða skýrslur af sjö skipverjum grænlenska togarans í dag en Thomas, grænlenskur ríkisborgari fæddur árið 1987, er ekki viðstaddur vitnaleiðslurnar.

Stýrimaðurinn sagði frásögn Thomasar og félaga hans Nikolaj hafa tekið einhverjum breytingum eftir því sem á leið, en rætt hefði verið ýmist um eina stúlku eða tvær í bílnum með þeim þessa nótt. Thomas hefði hins vegar sagst hafa ekið tveimur stúlkum í verslun Krónunnar.

Textaskilaboð um stúlku og bíl

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði stýrimanninn um atburðina um borð í skipinu á meðan málið var í algleymingi á Íslandi.

„Ég kom á vakt klukkan tvö að íslenskum tíma, og þá var skipstjórinn að lesa um rauða bílinn og hafði fengið myndir frá útgerðinni á Íslandi. Ég held að klukkan fimm um nóttina hafi skipinu svo verið snúið við.“

Þá sagði hann að skipverjarnir hefðu rætt fram og til baka hvað segja ætti Thomasi. Var afráðið að segja honum að um vélarbilun væri að ræða.

„Við slökktum líka á netinu en síminn virkaði,“ bætti stýrimaðurinn við.

Vék hann sögunni því næst að textaskilaboðunum sem bárust Thomasi frá blaðamanni, en Thomas hafi sýnt honum þau. Skilaboðin hefðu verið á ensku og fjallað um stúlku og bíl.

Lögreglulið gengur niður landganginn úr togaranum Polar Nanoq í janúar.
Lögreglulið gengur niður landganginn úr togaranum Polar Nanoq í janúar. mbl.is/Eggert

Gaf Thomasi róandi lyf

„Hann var fölur og grár. Ég sagði við hann, farðu bara upp og hvíldu þig, og reyndi að róa hann,“ en Thomas hafi verið mjög órólegur. Síðar hefði hann farið í herbergið hans, eftir að hafa rætt við skipstjórann.

„Þá hafði hann væntanlega lagt saman tvo og tvo, að eitthvað væri að,“ sagði stýrimaðurinn og bætti við að þarna hefði klukkan líklega verið átta eða níu um kvöld.

Sagðist hann hafa gefið Thomasi róandi töflu.

„Ef þú hefur ekki gert neitt þá hefurðu ekkert að óttast,“ sagðist hann hafa tjáð Thomasi. Hann hefði þá engu svarað heldur litið undan.

Grænlendingar þoli illa mótlæti

Verjandi Thomasar spurði vitnið hvernig manneskja Thomas væri.

„Það er erfitt að segja það núna, eftir allt sem hefur gerst, en Thomas var rólegur og vinalegur.“

Verjandinn spurði vitnið út í ummæli þess í lögregluskýrslu, þess efnis að Grænlendingar þyldu illa mótlæti.

„Ég er stýrimaður og þarf oft að brýna raust mína við undirmenn mína. Grænlendingarnir fara alltaf í baklás og verja sig, bera hönd fyrir höfuð sér og benda á einhvern annan; „það var ekki ég“.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert