Þarf að breyta þessu vélræna ferli

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fundurinn var mjög góður,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, í samtali við mbl.is, að loknum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Svandís óskaði eftir fundinum þar sem ræddar voru regl­ur um upp­reist æru. 

Svandís segir hér sé um að ræða mjög aðkallandi mál fyrir þingið til að taka til skoðunar. „Þegar um er að ræða mál sem veldur svona mikilli ólgu í samfélaginu þá á þingið að leggja við hlustir sama hvort það er janúar eða júlí,“ segir Svandís en hún óskaði eftir svörum frá dómsmálaráðuneytinu er varða framkvæmd mála af þessu tagi og óskaði líka eftir svörum lögmannafélagsins að því er varðar sérstök ákvæði er lúta að lögmannsréttindum.

Að und­an­förnu hef­ur tals­vert verið fjallað um upp­reist æru eft­ir að lögmaður­inn Robert Dow­ney, áður Ró­bert Árni Hreiðars­son, fékk upp­reist æru og gat því end­ur­heimt lög­manns­rétt­indi sín en hann var árið 2008 dæmd­ur í þriggja ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um.

Standi frammi fyrir orðnum hlut

Svandísi þykir niðurstaðan vera sú að í málum er lúta að uppreist æru sé ferlið mjög vélrænt og dómsmálaráðuneytið hafi innleitt það á undanförnum áratugum. „Þar er látið að því liggja að ráðherra og forseti á hverjum tíma standi frammi fyrir orðnum hlut. Ég hef efasemdir um að svo sé, þarna er um að ræða stjórnvaldsákvörðun um það að veita manni uppreist æru sem lítur að persónulegum og borgaralegum réttindum viðkomandi. Þar með þarf að liggja þar að baki og til grundvallar málefnaleg sjónarmið.“

Hún segir að Alþingi þurfi að hafa allar mögulegar leiðir til að tryggja að það geti séð forsendur þess þegar ráðherra lýkur við stjórnvaldsákvörðun. „Af þeirri ástæðu þá kallaði ég eftir á nefndarfundinum öllum gögnum sem lúta að veitingu uppreistar æru undanfarin skipti. Ráðuneytið er klárt á því að þeim ber að skila til nefndarinnar,“ segir Svandís en nefndin fundar aftur vegna málsins í ágúst.

„Við höfum fengið upplýsingar um að ráðherra sé að íhuga lagabreytingar að þessu leyti. Það er mitt mat að þarna sé um að ræða slíkt vandaverk að þar þurfi að vera þverpólitískur hópur sem komi að. Frumvarp af þessu tagi geti ekki orðið til bak við luktar dyr í því dómsmálaráðuneyti sem hefur innleitt þessa vélrænu framkvæmd.“

Þá segist Svandís telja brýnt að bæta skilning alls kerfisins á afleiðingum kynferðisbrota.

Margir hlutir sem þarf að skoða

Þingmaðurinn telur að það þurfi að skoða marga hluti. „Í fyrsta lagi hvort hugtakið, uppreist æru, sé barn síns tíma. Það eru mál sem lúta að tímalengd, hvað fela meðmælin í sér? Viljum við að sá sem óskar eftir uppreist æru sýni fram á það með einhverjum hætti að hann hafi leitað sátta við fórnarlömb sín eftir atvikum eða samfélagið í heild. Þetta þarf að skoða með opnum hug vegna þess að grundvallarsjónarmiðið er að við viljum búa í réttarríki og að fangelsisvist er fyrst og fremst betrunarvist.“

Málið snýr einnig að lögmannsréttindum og þá þurfi að horfa til annarra þátta. Svandís bendir á að þá þurfi ef til vill að skoða eðli brota. 

„Við viljum að þessi lög endurspegli þá kröfu í samfélaginu um gagnsæi og að það sé mjög skýrt á hverju ákvörðun stjórnvalds er byggð. Í öðru lagi þarf það að endurspegla það sem eru okkar lærdómar eftir hrunið; við viljum betra samfélag. Þetta hangir á þeirri spýtu, við viljum að lögin endurspegli sanngirni og réttlæti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert