„Höfum ekki tæmt úr réttlætisbrunninum“

Bergur Þór Ingólfsson.
Bergur Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér finnst viðbrögðin hafa verið mjög góð,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar þeirra stúlkna sem Robert Downey braut á og hlaut dóm fyrir árið 2008, í samtali við mbl.is. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði í gær um uppreist æru eftir að Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, óskaði eftir fundi þess efnis.

Eftir fundinn í gær sagði Svandís meðal annars að ferlið er varðaði uppreist æru hefði verið allt of vélrænt hingað til. Bergur tók undir það og sagði að tekið hefði verið undir margt sem hann og hans fjölskylda hefðu bent á.

Eins og ferli í gegnum bílaþvottastöð

„Það var tekið undir að ferlið hefði verið óeðlilegt. Þarna hefur átt sér stað einhver vélræn hreinsun, eins og í gegnum bílaþvottastöð, varðandi alvarleg mál og alvarlega glæpi. Það er ámælisvert að rannsóknarskylda hinna opinberu aðila skuli ekki vera ofar einhverri hefð sem lítur út eins og algjört andleysi,“ segir Bergur sem hefur gagnrýnt kerfið harðlega eftir að Robert Downey fékk uppreist æru.

Bergur setti fram nokkrar spurningar á Facebook-síðu sinni fyrir fundinn í gær en þar velti hann til að mynda upp hver bæri ábyrgð á framkvæmdinni að Robert Downey fékk uppreist æru. „Þetta hefur áhrif á alla brotaþola og fjölskyldur þeirra, enda hefur síðastliðinn mánuður verið á hvolfi hjá okkur. 

Bergur er inntur eftir því hvort flestir séu ekki sammála honum og hans baráttu; að breyta þurfi kerfinu á einhvern hátt. Hann segir að flestir séu það en ekki hafi allir tjáð sig í þá veru. 

Forsætisráðherra hlýtur að bera ábyrgð

„Þásettur dómsmálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, hefur ekkert annað sagt um málið nema að hann hafi tekið þátt í þessu vélræna ferli og hann telji það eðlilegt. Við teljum það ekki eðlilegt og köllum hann til ábyrgðar fyrir að skrifa undir sem sitjandi dómsmálaráðherra. Hann hlýtur að bera ábyrgð og ákvörðunin hlýtur að vera hans, nema hann bendi á forseta Íslands og þá þurfum við virkilega að taka upp umræðuna um hver ábyrgð forseta er,“ segir Bergur.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í Morgunblaðinu í síðustu viku að hún hygðist leggja fram frumvarp fyrir þing um uppreist æru í haust og að hún teldi rétt að breytingar yrðu gerðar á áratugalangri framkvæmd við veitingu uppreistar æru. „Þetta er gott mál en ég hef ekki séð nánari útfærslur. Ég held að Sigríður sé kona orða sinna og hún sé vinnusöm og röggsöm,“ segir Bergur þegar hann er spurður hvernig orð Sigríðar hljóma í hans eyru.

Baráttunni hvergi nærri lokið

Með myllumerkinu #höf­um­hátt hafa Bergur og fleiri gagn­rýnt stjórn­völd fyr­ir að hafa veitt Ró­bert Dow­ney upp­reist æru. Þar minna þeir einnig á mik­il­vægi þess að krefjast breyt­inga í sam­fé­lagi þar sem enn sé langt í land í bar­átt­unni gegn kyn­ferðisof­beldi. Bergur segir að baráttunni sé hvergi nærri lokið. 

„Við höfum ekki tæmt úr réttlætisbrunninum. Við eigum eftir að hafa hátt áfram og hvetjum fólk til að gera það varðandi kynferðisbrotamál. Í fréttum fyrir stuttu komu fram tölulegar upplýsingar um það að 20% barnshafandi kvenna á Íslandi verða fyrir ofbeldi. Það er ástæða til að bregðast við því, þessar tölur eru svo rosalegar. Skilaboðin eiga að vera skýr að ofan, þegar svona mál eiga í hlut á að ræða þau og rannsaka en ekki hleypa þeim í gegn fyrir einhverja hefð. Þetta er virkilega aðkallandi mál.“

Bergur bendir á að 169 leiti árlega á neyðarmóttökuna vegna kynferðisofbeldis. „Þetta er ástand og eru 169 fleiri en hafa leitað á neyðarmóttökuna vegna til dæmis hryðjuverka og ætti því að taka fastari tökum. Það ætti að vera unnið í því að breyta þessu. Þess vegna þarf að hafa hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert