Íslensk náttúra beint á borðið

Brynju Jóhannsdóttur lífeindafræðingi er yfirborð jarðar hugleikið viðfangsefni. Eftir starfslok nýtur hún frelsisins og sinnir áhugamálum sínum sem eru ferðalög, göngur, útivist og listsköpun af ýmsu tagi – aðallega ljósmyndun þessi dægrin. Í diskamottunum Yfirborð, sem hún setti nýverið á markað, eru öll þessi fjölbreytilegu áhugamál uppi á borðum.

Listrænir hæfileikar Brynju Jóhannsdóttur eru óðum að koma upp á yfirborðið í orðsins fyllstu merkingu. Samt er ekkert yfirborðslegt í venjulegum skilningi við hönnun hennar, sem hún setti nýverið í framleiðslu og sölu. Nánar tiltekið tíu gerðir af diskamottum með margvíslegum nærljósmyndum eftir hana sjálfa af yfirborði jarðar. Og ætlaðar eru yfir borðið – matarborðið. Vörulínan nefnist vitaskuld Yfirborð. „Orðaleikur, sem mér fannst strax blasa við að nota,“ segir Brynja.

Diskamotturnar eru 42x29,7 cm og spegla flestar þeirra árstíðirnar með mismunandi hætti, t.d. eru vormotturnar annars vegar með mynd af lambagrasi og hins vegar sauðamerg. Á öðrum eru bæði myndir af framandlegum og fágætum plöntum sem og þeim sem fólk hefur fyrir augunum víðast hvar í náttúrunni ef það á annað borð gefur jörðinni gaum.

„Gróður er í aðalhlutverki á öllum mottunum. Fyrstu myndirnar mínar voru af mjög litskrúðugum runnum, síðan mosa í öllum sínum margbreytileika og einnig hef ég tekið myndir af snjó þar sem mismunandi gróður gægist upp úr,“ segir Brynja. Ekki amalegt að fá íslenska náttúru beint á borðið.

Í diskamottunum sameinar Brynja áhuga sinn á íslensku landslagi og náttúru, útivist og ljósmyndun.

Ljósmyndasýning

„Ég hef að vísu oft tekið myndir, en þegar ég eignaðist almennilega myndavél fyrir þremur árum fór ég að spreyta mig meira og taka meðal annars myndir af því smáa í náttúrunni. Sama ár sótti ég um og fékk dvöl í Listamiðstöðinni Nesi á Skagaströnd. Markmiðið var að taka myndir af veðri og fá síðan heimamenn til að lýsa veðrinu á myndunum. Þar sem ég sóttist eftir veðrabrigðum fannst mér upplagt að dvelja þarna í febrúar. Ekki vildi betur til en svo að önnur eins veðurblíða hafði ekki verið þarna í mannaminnum. Ég hélt þó mínu striki; tók einar fimmtán ljósmyndir af veðurblíðunni og efndi svo til sýningar í Félagsheimilinu Fellsborg eins og til stóð. Lýsingar heimamanna voru að vonum fremur einsleitar,“ segir Brynja brosandi. Henni fannst svolítið kaldhæðnislegt að um leið og hún ók út úr bænum í lok mánaðarins gerði kolbrjálað veður, líkt og hafði verið þar í desember og janúar.

Ljósmyndasýningin í Fellsborg er fyrsta og eina sýning Brynju – fram til þessa að minnsta kosti. Hún segir ljósmyndun og aðrar listgreinar sem hún hefur fengist við um dagana vera tómstundagaman og sér ekki eftir að hafa tekið nám í lífeindafræði fram yfir listnám í gamla daga. Hún neitar því þó ekki að list- eða hönnunarnám hafi heillað hana svolítið. „Kannski skorti mig bara sjálfstraust, en einnig spilaði inn í að ég vildi fara í praktískt nám.“

Lífeindafræðin og listin

Brynja starfaði í áratugi sem lífeindafræðingur á ýmsum rannsóknarstofum Háskóla Íslands, því næst við matvælarannsóknir hjá Hollustuvernd ríkisins og síðast hjá Umhverfisstofnun. Lengst af í fullu starfi, nema nokkur ár fyrir margt löngu þegar börnin hennar voru lítil og eftir að hún skellti sér í vöruhönnunarnám í Iðnskólanum í Hafnarfirði árið 2008.

„Ég lauk reyndar ekki prófi því í hruninu var aðgengi fólks eldra en 25 ára til náms takmarkað og mér fannst ég ekki lengur velkomin. Hugmyndin að diskamottunum kviknaði í kúrs í markaðsfræði svo þær hafa verið nokkuð lengi í bígerð,“ segir Brynja.

Samhliða starfi sótti hún alls konar námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík og víðar; í teiknun, skúlptúr, keramiki, málun, vefnaði, silfursmíði, tálgun og ljósmyndun svo fátt eitt sé talið. Í vetur var hún á tálgunarnámskeiði í Handverkshúsinu og kveðst vel geta hugsað sér að prófa sig meira áfram á því sviði. Um nokkurt skeið á tíunda áratug liðinnar aldar einbeitti hún sér að leirkerasmíði og hafði komið sér upp lítilli vinnustofu. Hana langar til að taka aftur til við keramikið en segir tímann verða að leiða í ljós hvort sá draumur rætist. Þessi dægrin eigi ljósmyndun hug hennar allan.

Spurð hvort þekking hennar á lífeindafræði hafi komið henni til góða í listsköpuninni segir hún að í keramikinu hafi hún nýst við gerð glerunganna sem hún vann úr efnum í náttúrunni.

Nýtur frelsisins

„Ég ákvað fyrir löngu að hætta að vinna þegar ég yrði 65 ára og fara virkilega að njóta lífsins, gera allt það sem mig langaði til en hafði aldrei nægan tíma til. Núna hef ég verið löggiltur eldri borgari í þrjú ár, frjáls eins og fuglinn fljúgandi,“ segir Brynja. Hjá henni er aldrei dauður tími enda eru áhugamálin svo mörg að enn hefur hún ekki tíma til að sinna þeim öllum. Hún er á sífelldum ferðalögum, nýkomin frá Breiðafjarðareyjum, þar sem hún á athvarf, staldraði einn dag við heima hjá sér í Kópavogi og var svo rokin til Rangárvalla að heimsækja vinafólk. Efalítið er myndavélin með í för, fleiri diskamottur eru væntanlegar á markaðinn.

Yfirborð-diskamotturnar eru til sölu á facebook.com/brynjaj, í Rammagerðinni, Vesturfarasetrinu á Hofsósi og Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert