Lögreglan óskar eftir upplýsingum

Húsið sem brann á Stokkseyri.
Húsið sem brann á Stokkseyri. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson

Lögreglan á Suðurlandi óskar eftir upplýsingum frá almenningi um mögulegar mannaferðir aðfaranótt sunnudags þegar einbýlishús á Stokkseyri brann. 

Greint hef­ur verið frá því á mbl.is að húsið, sem er frá ár­inu 1910, sé gjör­ónýtt. Föst bú­seta var í hús­inu en íbúa tókst að koma sér út áður en viðbragðsaðila bar að garði. Kon­an var flutt á slysa­deild í Reykja­vík vegna gruns um reyk­eitrun. 

Þorgrímur Óli Sig­urðsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi, segir að beðið sé niðurstöðu úr rannsóknum frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan sé væntanleg í þessari viku eða þeirri næstu og þá er hægt að segja eitthvað til um tildrög eldsvoðans.

„Við höfum verið að kalla eftir því ef einhver hefur séð óeðlilegar mannaferðir á eða við brunastað aðfaranótt sunnudags að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi,“ segir Þorgrímur Óli og bætir við að það þurfi ekki að þýða að um íkveikju hafi verið að ræða. 

„Einhver hefur kannski séð eld eða orðið var við mannaferðir. Við erum að skoða alla möguleika,“ segir Þorgrímur en tilkynning um eldinn barst klukkan 5.20 aðfaranótt sunnudags.

Þeim sem telja sig hafa upplýsingar um mögulegar mannaferðir er bent á að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000 eða senda tölvupóst á sudurland@logreglan.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert