Malbikunarframkvæmdir tafist vegna veðurs

Malbikunarframkvæmdir ganga ágætlega í Reykjavík. Mynd úr safni.
Malbikunarframkvæmdir ganga ágætlega í Reykjavík. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Malbikunarframkvæmdir í Reykjavík eru nokkurn veginn á áætlun en gætu tafist frekar vegna veðurs. Reykjavíkurborg hefur lokið um 50% af því sem er á áætlun og Vegagerðin um 70%. Bæði þessi vika og síðasta vika hafa verið erfiðar vegna veðurs.

Hjá Reykjavíkurborg stendur til að malbika um 32 kílómetra samtals og um miðjan júlí var búið að klára 15-16 kílómetra, að sögn Ámunda Brynjólfssonar skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg. „Planið er að reyna að klára þetta í byrjun september, með fyrirvara þó um að veðráttan tefji okkur ekki um of,“ segir Ámundi í samtali við mbl.is.

„Afkastagetan er þannig að menn bæta í þá daga sem virkilega er hægt að vera að og búið er að undirbúa allt sem hægt er svo malbikunin sjálf gangi sem hraðast fyrir sig,“ segir Ámundi. Veðráttan hefur aðeins gert þeim erfitt fyrir og segir Ámundi ekki hægt að neita því að þessi vika líti ekki vel út. „Þetta gæti verið betra og gæti verið verra, við erum á ágætisstað með þetta,“ segir Ámundi að lokum.

Á meðfylgjandi korti má sjá þá vegkafla sem verða malbikaðir …
Á meðfylgjandi korti má sjá þá vegkafla sem verða malbikaðir í Reykjavík í ár. Kort/Reykjavíkurborg

Vegagerðin sér um stofnbrautir

Vegagerðin sér um malbikun á stofnbrautum og að sögn Friðrikku Jóhönnu Hansen, verkfræðings hjá Vegagerðinni, hafa um 70% verið kláruð nú þegar. „Áætluð verklok eru 15. ágúst en við setjum þá kröfu að allt á höfuðborgarsvæðinu verði búið 1. ágúst því reynslan er sú að umferð eykst rosalega mikið eftir verslunarmannahelgi,“ segir Friðrikka.

Að sögn Friðrikku hefur gengið ágætlega í sumar en síðasta vika hafi verið erfið og í þessari viku liggi starfsemin í raun niðri. Enn á eftir að malbika hluta af Miklubraut frá Stakkahlíð að Lönguhlíð og framhjá Háaleitinu. Þá stendur til að malbika eina akrein á Hringbraut frá gatnamótum Bústaðavegar og Snorrabrautar áleiðis að Lönguhlíð.

Fyrir liggur að kafli á Bústaðavegi þarf að bíða fram yfir verslunarmannahelgi vegna þess að verktakinn er farinn í frí. „Það er allavega mikið búið og við eigum ekki von á því að vera mikið á stofnbrautum í ágúst, miðað við hvernig gengur,“ segir Friðrikka að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert