Milljón rúmmetrar af skólpi í sjóinn

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna.
Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega milljón rúmmetrar af skólpi fóru í sjóinn á þeim átján dögum sem neyðarloka dælustöðvarinnar í Faxaskjóli var opin. Frá þessu greindi Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, á blaðamannafundi í Félagsheimilinu Elliðaárdal í dag sem haldinn var vegna bilunarinnar.

Viðgerð á neyðarlokunni er lokið en hún var sett niður síðdegis í gær. Í kjölfarið var hún prófuð og stillt enn betur á flóði og fjöru og lauk prófunum á henni seint í gærkvöldi. Hefur því tekist að stöðva lekann meðfram neyðarlokunni sem glímt hefur verið við að undanförnu og er reksturinn á dælustöðinni kominn í eðlilegt horf.

Röng tegund af stáli orsakaði bilunina

Bilunina má rekja til afhendingar á röngu efni en ný lúga var sett í dælustöðina árið 2014. Lúgurnar eru smíðaðar úr ryðfríu stáli og virðist sem röng tegund af ryðfríu stáli hafi verið sett í opnunarbúnað lokunnar sem leiddi til eyðileggingar búnaðarins.

Inga Dóra segir það ljóst að upplýsa hefði átt um bilunina fyrr í ferlinu og fyrirséð hefði verið að hleypa þyrfti þessu magni af skólpi í sjóinn. 

„Við höfum dregið lærdóm af þessu og munum breyta verklaginu okkar í kjölfarið,“ sagði hún á blaðamannafundinum í dag. Nefndi hún í því sambandi að skilti verði sett upp við dælustöðvar ef hleypa þarf óhreinsuðu skólpi í gegn, upplýsingar verði veittar á vefsíðu Veitna og á Facebook-síðu þess auk þess sem sendar verði út fréttatilkynningar eftir atvikum.

Tvær bilanir komu upp árin 2014 og 2015

Árin 2014 og 2015 komu upp bilanir í dælustöðvum Veitna sem ekki var heldur tilkynnt um, segir Hafliði Jón Sigurðsson, forstöðumaður rekstrar hjá Veitum. Í bæði skiptin var þó um minniháttar bilanir að ræða sem stóðu aðeins yfir í örfáa daga, sagði hann á blaðamannafundinum í dag, og voru þær því ekki sambærilegar þeirri sem varð nú í sumar. 

Á fundinum kom að starfsmenn Veitna hafi undanfarna daga hreinsað strandlengjuna og fjarlægt þar rusl sem rak á fjörur og halda þeir því áfram næstu daga. Þá voru jafnframt birtar tölur frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þar sem kom fram að saurgerlamengun hafi aðeins mælst yfir hættumörkum alveg við stöðina, en ekki á öðrum stöðum fjær dælustöðinni.

Þá stendur til að skoða á næstu dögum dælustöðina við Hörpu sem er með sams konar neyðarloku og bilaði við Faxaskjóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert