Sækja frekar í einkarekna heilsugæslu

Eftir að ný heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, var opnuð á höfuðborgarsvæðinu þann 1. júní síðastliðinn hefur skráðum einstaklingum á nokkrum heilsugæslustöðvum innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fækkað töluvert.

Skráðum einstaklingum á heilsugæslustöðinni í Árbæ fækkaði langmest, eða um tæplega 2.000. Á heilsugæslunni í Efra-Breiðholti hefur skráðum einstaklingum fækkað um tæplega 1.000. Einnig hefur orðið töluverð fækkun í Grafarvogi, Mosfellsumdæmi og á Seltjarnarnesi, að því er fram kemur í frétt á vef Sjúkratrygginga Íslands; sjukra.is.

Alls hafa tæplega 5.000 einstaklingar skráð sig á hina nýju heilsugæslustöð á Höfða, sem er einkarekin heilsugæsla. Gera má ráð fyrir að hluti skjólstæðinga þeirra lækna sem áður störfuðu innan heilsugæslunnar en starfa nú á Höfða hafi fylgt sínum lækni á nýja stöð.

Til viðbótar skráðum einstaklingum á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega 16 þúsund einstaklingar hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Vert er að geta þess að ný einkarekin heilsugæsla mun opna þann 1. ágúst næstkomandi að Urðarhvarfi í Reykjavík.

Samkvæmt nýjum reglum um skráningu á heilsugæslu, er einstaklingum heimilt að skrá sig á þá stöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni sem hentar viðkomandi best. Ekki er lengur skylt að vera skráður á heilsugæslustöð í því hverfi sem viðkomandi á lögheimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert