Viðgerðum ekki lokið hjá United Silicon

Unnið er að viðgerðum og endurbótum í kísilverksmiðju United Silicon …
Unnið er að viðgerðum og endurbótum í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfsemi kísilmálmsmiðju United Silicon í Helguvík er ekki farin af stað aftur eftir að 1.600 gráðu heitur kísilmálmur lak niður á gólf þegar ker sem verið var að tappa á yfirfylltist aðfaranótt mánudags. Sumarleyfi fyrirtækja sem þjónusta verksmiðjuna hafa áhrif á viðgerðir.

Að sögn Kristleifs Andréssonar, yfirmanns öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, var ákveðið að ráðast í endurbætur samhliða viðgerðum. „Það var ákveðið að breyta aðeins hönnun á töppunarbúnaðinum, nota tækifærið til þess að einfalda hann og gera hann skilvirkari,“ segir Kristleifur.

Einnig segir Kristleifur sumarleyfi hafa áhrif á gang mála. „Sumarleyfi hjá fyrirtækjum sem þjónusta okkur tefja þessar endurbætur og viðgerðir verulega,“ segir Kristleifur og bætir við að oft gangi hlutirnir aðeins hægar fyrir sig í júlí en vanalega. „Starfsemin er ekki komin í gang aftur og við ætlum bara að gefa okkur þann tíma sem þarf til þess að endurbæta búnaðinn og gera við,“ segir Kristleifur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert