7 vikna í einangrun með kíghósta

Stúlkan er nú einangrun á Barnaspítalanum. Móðir hennar segir líðan …
Stúlkan er nú einangrun á Barnaspítalanum. Móðir hennar segir líðan hennar betri eftir að hún fékk lyf.

7 vikna gamalt barn er nú í einangrun á Barnaspítala Hringsins vegna kíghósta. Móðir stúlkunnar, Helena Dröfn Stefánsdóttir, greindi frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.

„Þetta er sjúkdómur sem getur verið lífshættulegur fyrir svona ungt barn og á helst ekki að vera til á landi eins og okkar með fríar barnabólusetningar, samt er enn til svo fáfrótt fólk sem kýs það að bólusetja ekki börnin sín!,“ segir í færslu Helenu.

„Þegar litla dóttir mín fær hóstaköst verður hún öll stíf eins og grjót, eldrauð í framan, blánar í kringum varir, hún ælir af áreynslu og andar ekki!!

Hún er of ung til að fá bólusetningu, en fyrst er bólusett 3 mánaða!“

Helena lætur fylgja upptöku af hóstaköstum stúlkunnar með færslunni og segir ástand hennar versna með hverjum deginum. „Það ætti ekkert foreldri að þurfa að horfa upp á barnið sitt í þessu ástandi!,“ bætir hún við og segir foreldra bera ábyrgð.

Í samtali við mbl.is nú í hádeginu segir Helena líðan dóttur sinnar vera betri í dag eftir að hún fékk lyf. Hún segir stelpuna hafa getað smitast hvar sem er og vekur athygli á því að bólusetning fullorðinna við kíghósta gildi ekki í nema tíu ár og því séu flestir fullorðnir óbólusettir án þess að hafa hugmynd um það.

„Börn sem eru bólusett geta fengið þetta, en einkennin eru miklu vægari ef þau hafa verið bólusett,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert