Árleg Skötumessa í Garði

Vel var mætti í skötumessuna.
Vel var mætti í skötumessuna. mbl.is/Hilmar Bragi

Skötumessa var haldin í Gerðaskóla í Garði í gærkvöldi. Þetta var í ellefta sinn sem veislan er haldin, en allur aðgangseyrir auk styrkja frá fyrirtækjum, alls á fjórðu milljón króna, rennur til styrktar góðum málefnum á Suðurnesjum og víðar.

„Við erum nokkur hjón og vinir sem standa að þessu,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður og einn forsprakka Skötumessunnar, sem var að búa sig undir gleðina er Morgunblaðið heyrði í honum í gærkvöldi.

„Þetta byrjaði allt með skötuveislu heima hjá mér í Keflavík á sínum tíma og það fór svo aðeins að bólgna út. Þegar ég varð bæjarstjóri í Garðinum sprakk þetta út og síðan hefur þetta verið svona stór veisla, með miklu fjölmenni,“ segir Ásmundur. Ýmsir popparar héldu uppi stemningunni í Garðinum í gærkvöldi, þeirra á meðal Gunni Þórðar og trommarinn Ásgeir Óskarsson.

Salurinn var þéttsetinn í skötumessunni.
Salurinn var þéttsetinn í skötumessunni. mbl.is/Hilmar Bragi


Þá tók Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, lagið, auk þess sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Ólafur Helgi Kjartansson, tróð upp með slagara Rolling Stones.

Ýmis samtök njóta góðs af Skötumessunni líkt og fyrri ár, meðal annars samtök krabbameinssjúkra barna, eldri borgarar, Íþróttafélagið Nes og skátarnir í Keflavík auk þess sem ríflegt framlag var veitt Velferðarsjóði Suðurnesja. athi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert