Barnabarnið skaðbrennt eftir garðvinnu

Hendur Stefáns voru illar farnar eftir bjarnarkló.
Hendur Stefáns voru illar farnar eftir bjarnarkló. Ljósmynd/Ingibjörg Dalberg

Eftir garðvinnu í síðustu viku með ömmu sinni hlaut Stefán, 12 ára, mikil brunasár á höndum. Útbrotin komu í ljós 48 tímum eftir að þau höfðu setið og átt gæðastund í garðinum og hreinsað til. Við athugun kom í ljós að plantan Bjarnarkló var skaðvaldurinn en hún getur valdið alvarlegum bruna og blindu. Bruninn er sársaukafullur og bati hægur. Ingibjörg Dalberg, amma Stefáns, segir óhirta lóð N1 við Ægisíðu vega þungt og hefur ósóminn borist þaðan í garða nánustu nágranna bensínstöðvarinnar á undanförnum árum.

Bjarnarkló líkist meinlausu illgresi en getur valdið alvarlegum bruna á …
Bjarnarkló líkist meinlausu illgresi en getur valdið alvarlegum bruna á húð og skilið eftir sig varanleg ör. Einnig getur safi plöntunnar valdið blindu ef hann berst í augu. Hanna Andrésdóttir

Getur valdið alvarlegum bruna og blindu

Á síðu Reykjavíkurborgar kemur fram að Bjarnarkló sé tegund af tröllahvönn. Af tröllahvönnum stafar slysahætta því safinn í stönglum og blöðum þeirra er eitraður. Í honum eru efni sem virkjast í sólarljósi og geta valdið alvarlegum bruna á húð og skilið eftir sig varanleg ör. Einnig getur safinn valdið blindu ef hann berst í augu.

Bjarnarkló er sömuleiðis algengust tröllahvanna. Plönturnar geta orðið yfir þrír metrar á hæð og stöngullinn allt að 100 mm í þvermál. Magn plöntusafa í stönglum og blöðum er oft mjög mikið og því hættan alvarlegum brunasárum töluverð.

Stefán var illa brenndur á höndum eftir garðhreinsunina og við …
Stefán var illa brenndur á höndum eftir garðhreinsunina og við athugun kom í ljós að plantan bjarnarkló var skaðvaldurinn. Hún getur valdið alvarlegum bruna og blindu. Ljósmynd/Ingibjörg Dalberg

Skaðbrenndur eftir klukkustund

Stefán og fjölskylda hans eru nú í sumarfríi í Englandi en hann fór í heimsókn til ömmu sinnar rétt áður, á mánudaginn í síðustu viku. Ingibjörg var þá að vinna út í garði og bað hann um að hjálpa sér í skiptum fyrir pening í ferðasjóð.

„Ég býð honum hanska, því ég nota sjálf alltaf hanska en hann vildi frekar vinna án þeirra og ég lét það gott heita, vegna þess að ég vissi ekki að þetta væri svona hættulegt,“ segir Ingibjörg. Þau unnu saman í klukkustund og eftir það fóru þau og þvoðu á sér hendurnar og fengu sér kaffi. Safinn úr plöntunni þurfti því ekki lengi að sitja á húðinni áður en hann olli skaða.

Myndirnar sýna ljót brunasár, en samt sem áður segir Ingibjörg …
Myndirnar sýna ljót brunasár, en samt sem áður segir Ingibjörg að á myndunum sé farið að gróa. Ljósmynd/Ingibjörg Dalberg


Myndirnar sýna ekki það versta

Tveimur dögum síðar heyrir móðir Stefáns í Ingibjörgu afar áhyggjufull og sendir myndirnar sem fylgja greininni. Fyrst héldu þau að um sýkingu væri að ræða. Var Stefán þá sendur til enskra lækna sem sögðu að sýkingin stafaði af snertingu við eitraða plöntu.

Myndirnar sýna ljót brunasár, en samt sem áður segir Ingibjörg að á myndunum séu sárin farin að gróa. „Það versta var búið,“ segir Ingibjörg, „þetta var farið að lagast“. Hann hafi fyrst verið allur út í blöðrum á báðum höndum.

Ingibjörg segir sárin vera sársaukafull og það taki langan tíma að gróa. „Þetta er alveg búið að skyggja á ferðalagið því að hann ætlaði að vera í tennis og skemmtilegheitum með fjölskyldunni,“ segir Ingibjörg, „en hann hefur verið alveg handlama,“ bætir hún við. Brunasár Stefáns eru dæmigerð að hennar sögn.

Ingibjörg Dalberg hefur barist við Bjarnaklónna í mörg ár.
Ingibjörg Dalberg hefur barist við Bjarnaklónna í mörg ár. Hanna Andrésdóttir

Gæðastund í garðinum, nú bardagi

Þegar mbl.is hafði samband við Ingibjörgu var hún stödd út í garði, en hún segist „alltaf vera að berjast við klónna“. „Þetta er búið að eyðileggja garðinn minn,“ segir Ingibjörg, „það er meira af bjarnakló í fletinum heldur en grasi.“ Hún segir bjarnaklónna afar fljóta að breiða úr sér og ræturnar djúpar. „Þetta er allt undirlagt og ef þetta er ekki upprætt strax þá breiðir þetta hratt úr sér, sem er náttúrulega plága útaf fyrir sig,“ segir Ingibjörg.

„Eitt sinn átti ég alltaf gæðastundir í garðinum, núna er bara bardagi,“ segir Ingibjörg. Hún á átta barnabörn og segist í dag ekki þora að leyfa þeim í garðinn. „Þau eru vön að hnoðast í garðinum og leika sér en ég er mjög óróleg að láta þau leika sér hérna eftir að þetta hefur komið í ljós,“ segir hún.

„Við borgarbúar þurfum að taka höndum saman og reyna að …
„Við borgarbúar þurfum að taka höndum saman og reyna að uppræta þetta," segir Ingibjörg. Nú þurfi að útrýma klónni. Hanna Andrésdóttir

Ekki nóg að rífa upp

Ingibjörg hefur á hverju ári haft samband við N1 og beðið þá um að hirða lóðina og eyða klónni. „Ég hef farið á hverju einasta ári og hringt til þeirra,“ segir hún. Eftir atvikið með Stefán fékk hún nóg. „Ég fór til þeirra og sýndi þeim myndir af barninu. Þegar ég sá hvað barnið var orðið slasað þá hugsaði ég: „Ég verð að gera eitthvað í þessu“,“ segir hún.

Ingibjörg birti færslu inná Facebook til að vekja athygli á atvikinu. Það hefur greinilega borið tilætlaðan árangur enda rifu starfsmenn N1 plönturnar upp í snatri, stuttu síðar. Aftur á móti er það líklega ekki nóg, því ræturnar ná afar djúpt í jörðina og því þarf að stinga þær upp til að fjarlægja þær til fulls. „En betur má ef duga skal,“ segir hún. 

Til að verja öll börn og barnabörn

Hún hafi vakið athygli á þessu þar sem mörg börn búi í hverfinu. „Ég vil gera allt til þess að verja, ekki bara mín barnabörn, heldur öll barnabörn og öll börn í borginni því þau eiga alltaf að njóta vafans,“ segir Ingibjörg. Það sé augljóst af viðbrögðum fólks við færslunni að það viti ekki af skaðræðinu.

Hún segir að nú sé verk að vinna, plantan sé búin að dreifa vel úr sér og finnist til dæmis fullt á leikvöllum Vesturbæjar. „Almennt séð eiga fyrirtæki að hugsa vel um lóðirnar sínar og valda ekki fólki skaða sem eru ábúendur í kring,“ segir Ingibjörg. 

„Við borgarbúar þurfum að taka höndum saman og reyna að uppræta þetta," segir hún. Ingibjörg segir ábyrgð borgarinnar mikla og nú þurfi að útrýma klónni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert