Bíður þess að klífa næsthættulegasta fjall heims

John Snorri Sigurjónsson stefnir að því að vera fyrsti Íslendingurinn …
John Snorri Sigurjónsson stefnir að því að vera fyrsti Íslendingurinn til þess að toppa næst hættulegasta fjall í heimi en það hefur hann dreymt um frá barnæsku. Ljósmynd/Lífsspor á K2

John Snorri Sigurjónsson bíður enn átekta í grunnbúðum við fjallið K2. Hann hyggst reyna að klífa fjallið hættulega fyrstur Íslendinga. Talið er að aðeins um 240 manns hafi toppað K2 og 29% þeirra sem reyna láta lífið. 

Vegna snjóflóðs sem féll við búðir 3 hefur John Snorri beðið átekta í grunnbúðum fjallsins. „Við vorum búnir að leggja línur upp á milli búða 3 og 4 og við vitum ekki ástandið á línunum. Einnig vorum við búnir að fara upp með súrefniskúta,“ segir John Snorri í samtali við mbl.is en slæmt veður hefur gert það að verkum að enn er ekki mögulegt að kanna aðstæður.  

Enn innan tímarammans

„Það komu reyndar fréttir í dag [18. júlí] þess efnis að vind ætti að lægja 22. júlí. Það eru 58 km/klst. núna og þeir hafa ekki komist lengra en upp í búðir 2,“ segir John Snorri. Upphaflega var markmiðið að toppa K2 í kringum 20. júlí, sem er í dag, en John Snorri vonast nú til að komast á toppinn 24. eða 25. júlí.

Blaðamanni lék forvitni á að vita hversu langan tíma það tekur að komast frá grunnbúðum upp á topp. „Það tekur um fjóra daga ef allt gengur upp. Tölfræðin segir að flestir sem hafa náð alla leið eru að toppa í kringum 26.–28. júlí og eins og staðan er í dag erum við innan þess ramma,“ segir John Snorri.

Úr grunnbúðum K2 blasir allt fjallið við í allri sinni …
Úr grunnbúðum K2 blasir allt fjallið við í allri sinni dýrð. Ljósmynd/Lífsspor á K2

Enginn hefur toppað síðan 2014

Aðspurður hversu lengi hann muni bíða segir John Snorri að hann muni líkast til bíða fram til 7. ágúst. „Ég veit að aðrir hópar sem eru hérna ætla heim 4. ágúst. Einhverjir hafa toppað fyrstu vikuna í ágúst en líklega er hægt að telja á fingrum annarrar handar hversu margir hafa toppað í miðjum ágúst,“ segir John Snorri.

Enginn hefur náð að komast upp á topp fjallsins síðan 2014. „í fyrra var hópur búinn að koma búnaði sínum fyrir í búðum 3 en fór niður í búðir 2 yfir nóttina og á meðan féll snjóflóð sem sópaði öllum búnaði í burt og enginn komst á fjallið,“ segir John Snorri.

Erfitt að bíða og horfa á toppinn

„Hér frá grunnbúðum horfir maður á fjallið í heild sinni. Það er bara hérna beint fyrir framan mann. Á Everest sérðu ekki fjallið, þú þarft að fara í burtu til þess að sjá toppinn,“ segir John Snorri og bætir við að dag og nótt heyrist í grjóthruni og snjóflóðum. „Það er rosa erfitt að bíða,“ segir John Snorri að lokum og eftirvænting og ákefð hans leynir sér ekki.

Kvik­mynda­gerðarmaður­inn Kári Schram er einnig staddur í grunnbúðunum og hef­ur fylgt John Snorra eft­ir í nokkra mánuði við und­ir­bún­ing ferðar­inn­ar. Kári er að vinna að alþjóðlegri heim­ild­ar­mynd um ferðalagið og fylgdi John Snorra einnig í grunn­búðir Ev­erest fyr­ir nokkr­um vik­um þegar John Snorri gekk upp á fjórða hæsta fjall heims, Lhot­se.

Hægt er að fylgj­ast með John Snorra á vefsíðunni Lífsspor en hann safn­ar áheit­um fyr­ir Líf Styrkt­ar­fé­lag á leið sinni og allur ágóði rennur beint til félagsins.

Einnig er hægt að fylgjast með ferðum hans hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert