Risastórt verkefni í Surtsey í ágúst

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. Ljósmynd/HÍ

Stærsta rannsókn frá upphafi í Surtsey hefst í ágúst. Ætlunin er að bora holur í eyjunni og nýta gögnin sem fást til margvíslegra og flókinna rannsókna. Fjölþjóðlegur hópur vísindafólks undir stjórn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og  Marie Jackson, dósents við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum, vinnur að verkinu.

Verkefnið kallast SUSTAIN og er það styrkt af fjölmörgum alþjóðlegum sjóðum, m.a. frá Þýskalandi, Noregi, Bandaríkjunum og Íslandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Tilgangur SUSTAIN-verkefnisins er að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja með því að samþætta eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði  og örverufræði,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson. 

„Surtseyjargosið 1963 til 1967 er með frægari atburðum í jarðfræði heimsins á seinni hluta 20. aldar. Gosið sýndi hvernig land byggist upp í eldgosi í sjó og varpaði jafnframt ljósi á eðli sprengivirkni gosa þar sem vatn og kvika mætast.“

Sérstaða Surtseyjar

Magnús Tumi segir að allt frá því gosinu lauk hafi Surtsey gegnt sérstöku hlutverki í vísindunum, því hægt hafi verið að fylgjast með myndun og þróun eyjunnar og lífríkis hennar allt frá upphafi. 

„Fuglar, skordýr, selir og gróður hafa numið land auk þess sem í ljós hefur komið að sérstæðar lífverur hafa tekið sér bólfestu í berginu sem myndar eyjuna. Jafnframt hefur jarðhiti átt þátt í að breyta lausri gjóskunni sem upp kom í gosinu í þétt móberg sem stenst vel ágang sjávarins.  Í Surtsey gefast því fágæt tækifæri til rannsókna á eldvirkni, landmótun og lífríki enda eru árlega farnir leiðangrar til eyjunnar á vegum Surtseyjarfélagsins.“

Að sögn Magnúsar Tuma er meginverkefni SUSTAIN-hópsins að sinna kjarnaborun í Surtsey.  „Áformað er að taka tvo borkjarna, 200 metra langan lóðréttan kjarna auk kjarna úr 300 metra langri skáholu. Rannsaka á innri byggingu og þróun jarðhita í eyjunni sem dæmi um skammlíft jarðhitakerfi í rekbelti úthafsskorpu. Tilvist og fjölbreytileiki örvera við mismunandi hitastig  í innviðum eyjarinnar verða enn fremur könnuð. Sýni verða rannsökuð til að fá innsýn í landnám örvera og hlutverk þeirra í Surtsey. Að lokinni borun yrði lóðrétta holan notuð um áratugi sem neðanjarðarrannsóknarstöð til vöktunar, sýnatöku og tilrauna, sem munu lýsa langtímaþróun í samspili örvera, jarðsjávar og bergs.“

Kostnaður um 140 milljónir króna

Magnús Tumi segir að borunin með tilheyrandi flutningum muni kosta um 140 milljónir króna en sá kostnaður verði greiddur með styrkjum frá International Continental Scientific Drilling Program (ICDP), úr vísindasjóðum í Þýskalandi og Noregi auk styrkja frá Bandaríkjunum, en stærsta einstaka fjárframlagið að frátöldum styrk ICDP, er öndvegisstyrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs. Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur styðja einnig verkefnið að sögn Magnúsar Tuma og fleiri aðilar sem hag hafi af bættri bortækni og rannsóknaraðferðum í jarðhita. „Vestmannaeyjarbær leggur til rannsóknaraðstöðu og  án þyrlna og skipa Landhelgisgæslunnar væri verkefnið ekki mögulegt,“ segir Magnús Tumi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert