Finna enn ekkert í brunnum

Olíumengun í læk í Grafarvogi.
Olíumengun í læk í Grafarvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn er unnið að því að hreinsa upp olíumengunina í Grafarlæk í Grafarvogi. Starfsmenn Veitna hafa síðustu daga aðstoðað Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur við að leita að upptökum olíumengunar sem rennur úr regnvatnskerfinu í lækinn í botni Grafarvogs. Þeir hafa meðal annars sigið ofan í brunna á svæðinu til að kanna hvort mögulega sé olíumengun þar að finna, en án árangurs.

„Við reynum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða við að finna mengunina,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir starfsmaður Veitna. Hún bendir á að þar sem allt bendi til þess að mengunin komi úr regnvatnslögnum geti verið erfitt að finna orsök hennar. 

Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafa verð að störfum í allan dag í Grafarvogi að fanga olíuna. 

„Við erum að leita að leiðum hvernig við getum lágmarkað skaðann sem hefur orðið. Ástandið er alvarlegt,“ segir Rósa Magnúsdóttir hjá heilbrigðiseftirlitinu um olíumengunina í Grafarlæk.  

Ólöf Snæhólm ítrekar mikilvægi þess að almenningur sé meðvitaður um að regnsvatnslagnir séu eingöngu fyrir regn og úrkomu og að spilliefnum þarf að farga á viðeigandi hátt. Hún bendir einnig á að fólk noti frekar bílaplön þegar það þrífur bílana á þvottaplönum þar sem þartilgerðar síur sem hindra að mengandi efni berist beint út í náttúruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert