Hiti gæti farið yfir 25 stig

Hlýtt veður og gott verður næstu daga.
Hlýtt veður og gott verður næstu daga. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Nú stefnir í marga hlýja daga norðaustanlands – og hugsanlega víðar – hitinn gæti hugsanlega náð 25 stigum í fyrsta sinn á árinu,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Hiti hefur náð 20 stigum sex daga það sem af er júlímánaðar að sögn Trausta. Ágætis hiti var í fyrradag og enn hlýrra var í gær. Mestur hiti mældist á Húsavík, 23,8 stig. Á Akureyri mældist hitinn 23,5 stig í gær, á Seyðisfirði 23,2 stig og 22,1 stig í Bakkagerði í Borgarfirði eystri. Víða á Norður- og Austurlandi fór hitinn yfir 20 stigin.

Júlíhitinn er mikil framför frá júní sem rétt marði 20 stiga múrinn. Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,1 stig í Bakkagerði síðasta dag mánaðarins, þann 30. júní. Var það í eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum á landinu í júní. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 18,5 stig á Hjarðarlandi þann 14.

Júní var víða kaldari en maí

Langflestar stöðvar voru með neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár. Á nokkrum stöðvum á hálendinu og jaðri þess var júní kaldari en maímánuður. Að sögn Trausta er óvenjulegt að hitinn nái ekki 20 stigum á landinu í júnímánuði – gerðist þó síðast árið 1987. Aðrir tuttugustigalausir júnímánuðir síðustu hundrað ára eru: 1979 (ekki tuttugu í maí heldur), 1968 (tuttugu höfðu mælst í maí), 1961 (ekki í maí heldur), 1952 (ekki í maí heldur), 1946 (meir en tuttugu í maí) og 1928 (meir en tuttugu í maí).

Aftur á móti var óvenju hlýtt á landinu öllu í nýliðnum maí og fór hiti víða yfir 20 stig. Hæsti hiti mánaðarins var 23,7 stig í Bakkagerði þann 4. maí. Í Ásbyrgi og í Bjarnarey mældist hitinn 22,8 stig þann 3. og þann 21. í Húsafelli í 22,4 stig.

Það var sól og blíða í Aðaldal í gær og Atli Vigfússon bóndi á Laxamýri var á fullu að snúa heyi þegar blaðamaður náði af honum tali. Þurrkurinn var kærkominn því rignt hefur í margar vikur í Þingeyjarsýslum. Það skyggði þó á gleðina að þar var afar hvasst en Atli vonaðist til að það færi að lægja þegar á daginn liði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert