Liggur á að koma upp enn einu hótelinu

Kjartan og meðflutningsmenn hans óttast að menningarverðmæti kunni að glatast.
Kjartan og meðflutningsmenn hans óttast að menningarverðmæti kunni að glatast. mbl.is/Ómar

„Það er ekkert ofmælt að þetta sé helgasti staður þjóðarinnar. Erlendis eru menn ekkert að flýta sér þegar þeir skipuleggja og kasta til hendi á þannig stöðum. Fornleifarannsóknin stendur enn yfir en það liggur samt rosa mikið á að koma upp enn einu hótelinu,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfsstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Á fundi borgarráðs í morgun flutti hann tillögu um að áform um framkvæmdir á reitnum við Landsímahúsið verði endurskoðuð í ljósi fornleifafunda á svæðinu. Aðrir flutningsmenn tillögunnar eru Marta Guðjónsdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Vilja þau að horfið verði frá því að að reisa fyrirhugað stórhýsi í hinum forna Víkurgarði sem er elsti kirkjugarður í Reykjavík, en byggingarreiturinn nær inn í kirkjugarðinn.

„Þess í stað verði leitast við að forðast menningarlegt tjón, jafnvel stórslys, með því að vernda hinn forna kirkjugarð og þær fornleifar sem þar er að finna. Í garðinum verði jafnframt sett upp minningarmörk um hina framliðnu ásamt söguskilti og með því verði almenningi gefinn kostur á að skynja við útivist í garðinum hina miklu helgi og sögu sem þessi staður, réttnefndur nafli Reykjavíkur, geymir. Leitast verði við að gera nauðsynlegar breytingar í þessu skyni í samráði og sátt við þann aðila, sem hyggur á uppbyggingu á reitnum samkvæmt núgildandi skipulagi,“ segir í tillögunni, sem var frestað að ósk meirihlutans.

Svona er fyrirhugað að byggingarnar á svæðinu líti út.
Svona er fyrirhugað að byggingarnar á svæðinu líti út.

Upplýsingar um garðinn takmarkaðar

Í greinargerð með tillögunni segir að upplýsingar borgaryfirvalda um Víkurgarð hafi lengi verið mjög takmarkaðar, ekki síst hvað varðar stærð hans.

Í bók sr. Þóris Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík, frá árinu 1996, komi þó fram að árið 1825 var garðurinn fimmtíu álna breiður meðfram Aðalstræti. Meðfram Kirkjustræti var hann 91 alin en norðurhliðin 94 álnir. Í metrum talið er vesturhliðin 33,5 m, suðurhliðin 55 m og norðurhliðin 57 metrar. Þessi heimild gefur skýrt til kynna að mjög hefur verið gengið á land Víkurkirkjugarðs með byggingum Landsímans.

„Á þessum reit stóð fyrsta dómkirkja Reykvíkinga, þar hófst helgihald þegar eftir kristnitöku og rök hníga einnig að því að þarna hafi verið heiðinn helgistaður í meira en öld. Í Víkurkirkjugarði eru grafnar um þrjátíu kynslóðir Reykvíkinga, sem margir hverjir mörkuðu spor í sögu þjóðarinnar.

Að undanförnu hafa staðið yfir fornleifarannsóknir á svæðinu og hafa vísbendingar komið fram um að von sé á merkri niðurstöðu í tengslum við þær. Menningarþjóðir rasa ekki um ráð fram við skipulag á helgustu reitum höfuðborga sinna. Í þessu tilviki ber að sýna sérstaka varkárni við að heimila uppbyggingu á reitnum í ljósi þeirra fornleifafunda sem þar hafa orðið á síðustu árum. Því er óráðlegt að samþykkja breytingar á deiliskipulagi á svæðinu áður en heildarniðurstöður yfirstandandi fornleifarannsóknar liggja fyrir,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert