Myrk matarupplifun og tamdir hrafnar

Hjónin Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir.
Hjónin Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir.

Á bænum Vatnsholti í Flóahreppi kennir ýmissa grasa en þar reka athafnahjónin Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir sveitahótel og veitingastaðinn Blind Raven sem óhætt er að segja að eigi engan sinn líka. Ásamt því að standa í rekstri rækta hjónin einnig hrafna og hafa fuglarnir frá Vatnsholti slegið í gegn á undanförnum árum.

Þegar fólk er búið að borða matinn er það leitt út í dagsljósið og þá fær það mynd af réttunum sem það var að enda við að snæða. Þá sér það nákvæmlega hvað var á disknum hjá því,“ segir Jóhann Helgi Hlöðversson athafnamaður en hann rekur ásamt konu sinni, Margréti Ormsdóttur, bæði sveitahótel og veitingastaðinn Blind Raven á bænum Vatnsholti og hefur það gengið vonum framar. Alls eru um 40 herbergi til leigu á hótelinu en þar má að auki finna matsal sem hefur verið vinsæll fyrir brúðkaupsveislur, ráðstefnur, fermingarveislur og annað slíkt. Þá hefur veitingastaðurinn leyfi fyrir 300 manns í sæti hverju sinni.

„Við keyptum þessa jörð árið 2005 en ætluðum okkur aldrei út í hótelrekstur. Í dag rekum við sveitahótelið Vatnsholt í Flóahreppi og svo veitingastaðinn okkar.“ Spurður hvernig þetta hafi allt saman byrjað segir Jóhann að efnahagshrunið árið 2008 hafi verið ákveðinn örlagavaldur.

Úlfar Finnbjörnsson kokkur sér um matseðilinn á Blind Raven. Þjónarnir …
Úlfar Finnbjörnsson kokkur sér um matseðilinn á Blind Raven. Þjónarnir notast við nætursjónauka þegar þeir þjóna gestum til borðs.


„Hrunið þvingaði okkur svolítið til þess að leigja út herbergin okkar. Á jörðinni sem við keyptum voru fjós, hlaða og hesthús sem var allt saman í niðurníðslu. Við gerðum það upp og breyttum í veitingahús sem við opnuðum árið 2010.“ Veitingastaður þeirra hjóna á sér enga hliðstæðu hér á landi. Staðurinn er byggður upp að fyrirmynd nokkurra staða erlendis sem ganga út á að gestir borða í myrkri. Jóhann segir hugmyndina að því hafa kviknað út frá bíómynd fyrir nokkrum árum.

Þjónarnir með nætursjónauka

„Við konan vorum að horfa saman á einhverja rómantíska bíómynd og í henni hittust drengur og stúlka á veitingastað sem gekk út á það sem kallað er Borðað í myrkri (e. Dine in the Dark) í London. Þau sáu ekki hvort annað en urðu samt sem áður afskaplega hrifin hvort af öðru og náðu mjög vel saman. Mér fannst þetta svo frábært að ég sagði við konuna mína að þetta yrðum við að opna á Íslandi. Þetta væri öðruvísi.“ Þau Jóhann og Margrét flugu því næst til London þar sem þau snæddu á umræddum stað í London. Daginn eftir borðuðu hjónin á samskonar stað í Berlín og þar á eftir í Moskvu. Eftir þetta ferðalag var enginn vafi í hugum þeirra að opna slíkan stað á Íslandi.

„Erlendis er vaninn sá að þjónarnir eru blindir. Það venst nú sjálfsagt með tímanum. Hjá okkur eru þjónarnir hins vegar með nætursjónauka. Úlfar Finnbjörnsson kokkur er höfundur réttanna hjá okkur og þetta gengur þannig fyrir sig að þegar fólk kemur til okkar getur það valið um liti. Rautt þýðir kjötréttir, grænt eru grænmetisréttir, blátt eru sjávarréttir og hvítt er bland af þessu þrennu. Þetta er ákveðin óvissuferð því gestir vita yfirleitt ekki nákvæmlega hvað þeir eru að borða. Það tók okkur langan tíma að þétta hlöðuna þannig að það væru hvergi göt þar sem inn kæmist ljós.“ Þetta kann að hljóma undarlega í eyrum flestra, en Jóhann segir þetta þó vera mikla upplifun sem flestir ættu að prófa.

Samræður öðruvísi í myrkri

Margrét með einn af hröfnunum sem hjónin hafa tamið á …
Margrét með einn af hröfnunum sem hjónin hafa tamið á síðustu árum. Hrafnarnir hafa meðal annars fengið hlutverk í kvikmyndum.


„Gesturinn er leiddur inn í kolsvartamyrkur og við það missir hann þetta skilningarvit sem kallast sjón. Hann snæðir tveggja til þriggja rétta máltíð og þarf að nota hin skilningarvitin, þefskynið, snertiskynið og rýmisgreindina meðal annars. Það er gaman að prófa þetta í hóp, eða jafnvel bara hitta fólk þarna inni sem þú sérð ekki hvernig lítur út. Samræður verða öðruvísi. Við erum svo vön því þegar við tölum saman að setja upp ýmiss konar svipbrigði en þetta hverfur allt saman í myrkri.

Að sögn Jóhanns hefur veitingastaðurinn gengið mjög vel og fólk verður sífellt forvitnara að koma og prófa. „Þetta hefur gengið gríðarlega vel. Við höfum reyndar bara opnað fyrir sérpantanir fyrir hópa því það er svo mikið að gera í öllu hinu.“ Með því á hann meðal annars við hrafnarækt en á bænum Vatnsholti má finna fjöldann allan af hröfnum sem Jóhann hefur tekið að sér að temja. „Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um dýr og dýratamningar. Okkur áskotnaðist hrafnsungi fyrir um það bil átta árum og síðan þá er ég búinn að eiga nokkra hrafna.“

Unnið með Dalai Lama

Uppeldið á fuglunum hefur gengið mjög vel, í raun svo vel að vinsælt hefur verið að leita til Jóhanns þegar óskað er eftir hröfnum í alls kyns verkefni. Hafa hrafnar hans meðal annars birst í hinum vinsælu Vikings-þáttum, en einnig í auglýsingum og kvikmyndum. Þá hafa þeir komið fyrir í verkefnum fyrir Dalai Lama og ljósmyndarann heimsfræga Annie Lebovitz. Að sögn Jóhanns hefur tamningin því undið upp á sig.

„Það æxlaðist eiginlega þannig, það var aldrei ætlunin að fara út í einhver viðskipti með þetta.“ Ljóst er að Jóhanni er annt um fuglana. „Hrafnar eru stórmerkileg dýr, rosalega gáfaðir og skemmtilegir. Það er auðvelt að vinna með þá fyrsta árið, svo verða þeir erfiðari og þá er betra að hafa þolinmæði, ákveðni og næmni. Einn af hröfnunum hjá mér komst til að mynda í fréttirnar fyrir ekki svo löngu, hann lærði að tala. Gat sagt hæ, elsku strákur, halló og fleira. Svo mjálmaði hann alltaf eins og köttur. Hann krunkaði sem sagt ekki heldur flaug hann alltaf um mjálmandi. Hrafnar geta lært svona lagað, þeir taka þetta bara upp. Í þætti á BBC fyrir nokkrum árum var talað um að hrafninn og krákan væru fjórðu gáfuðustu dýrategundir jarðar. Ég get alveg staðfest það, þeir eru ofboðslega gáfaðir og með mikla rökhugsun. Þeir hugsa langt fram í tímann,“ segir Jóhann og nefnir dæmi, máli sínu til stuðnings.

Hundarnir voru verkfæri

„Vatnsholtið er 100 hektara jörð þannig að landið mitt er sirka tveir og hálfur ferkílómetri. Fyrir nokkrum árum átti ég sjö hunda og kenndi þeim öllum að þekkja lóðamörkin, þeir virtu þau alltaf. Eitt sinn komu tveir hrafnar og fóru að atast í hundunum mínum daglega, þrjá daga í röð. Létu þá alltaf elta sig út fyrir bæinn og niður fyrir mýri. Ég hugsaði ekki mikið út í það. Á þriðja degi kom nágranni minn hlaupandi í miklu áfalli og sagði að hundarnir mínir væru að drepa rollu hjá sér. Ég hljóp af stað og sá þá að hundarnir höfðu farið yfir djúpan landamæraskurð á milli okkar nágrannanna, sem þeir höfðu aldrei gert áður, og voru búnir að rífa rolluna á hol. Um það bil þrjátíu metrum aftar sátu hrafnarnir tveir á girðingarstaurum og biðu. Þá höfðu þeir ekki verið að stríða hundunum mínum, þeir vissu bara um mat. Svo þeir fóru og fundu sér verkfæri sem voru hundarnir mínir. Svona vinna hrafnarnir í náttúrunni, oft með úlfum,“ segir Jóhann.

Það er því óhætt að segja að Vatnsholt sé bæði líflegur og skemmtilegur staður að heimsækja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert