Náttúrubörn á Hólmavík

Náttúrubarnaskólinn. Öryggið var að sjálfsögðu í fyrirrúmi hjá krökkunum sem …
Náttúrubarnaskólinn. Öryggið var að sjálfsögðu í fyrirrúmi hjá krökkunum sem léku sér í rekaviðnum. Ljósmynd/Dagný Ósk Jónsdóttir

„Þegar þetta var að byrja fór ég í ferðir með náttúrufræðingum, veðurfræðingum og fleirum. Þeir sögðu mér allt sem þeir vissu og svo reyni ég að miðla því til krakkanna.“

Þetta segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, umsjónarmaður Náttúrubarnaskólans í Strandabyggð og yfirnáttúrubarn. Náttúrubarnaskólinn er sumarnámskeið sem starfrækt hefur verið á Sauðfjársetrinu á Ströndum í nágrenni Hólmavíkur í þrjú sumur. Í skólanum fræðast börnin um náttúruna frá ýmsum sjónarhornum.

„Við bruggum jurtaseyði, skoðum fugla, búum til fuglahræður, sendum flöskuskeyti og fleira,“ segir Dagrún. Flestir þátttakendur eru frá Hólmavík og sveitinni í kring, en Dagrún segir einnig eitthvað um að krakkar komi lengra að og stundum kíki börn í heimsókn sem eru á ferðalagi með foreldrum sínum. Venjulega fer starfsemin fram í sirkustjaldi fyrir utan Sauðfjársetrið en búið var að taka það saman er blaðamann bar að garði þar sem stormur var í aðsigi. Dagrún stundar meistaranám í þjóðfræði við Háskóla Íslands og býr í borginni á veturna. Meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru sögur, atvinnuhættir, tónlist og ýmsir siðir og venjur. Hún segir náttúruna aldrei langt undan í þjóðfræðinni enda ekki langt síðan þjóðin lifði öll á náttúrunni. Þjóðsögur eru í sérstöku uppáhaldi hjá Dagrúnu og hún er dugleg að deila þeim með börnunum.

Börnin bæta bæinn

Í náttúrunni. Dagrún Ósk Jónsdóttir.
Í náttúrunni. Dagrún Ósk Jónsdóttir.


Sumarnámskeiðin eru ekki það eina sem Dagrún tekur sér fyrir hendur á vettvangi Náttúrubarnaskólans því hún sér einnig um skapandi sumarstörf á Hólmavík, en þau eru hluti af unglingavinnu bæjarins sem börnum í efstu bekkjum grunnskólans býðst að taka þátt í. Ýmiss konar verkefni voru unnin í skapandi sumarstörfum en þeim er nú lokið þetta sumarið. Lögð var áhersla á að virkja sköpunarkraft ungmennanna með það að markmiði að gera Hólmavík að betri bæ, bæði fyrir íbúa og ferðamenn. Í því skyni söfnuðu ungmennin saman hátt í eitt hundrað hugmyndum að úrbótum í bænum og kennir þar ýmissa grasa. Vatnsrennibraut í sundlaugina, útsýnispallur upp á vatnstankinn og fleiri skilti fyrir ferðamenn er meðal þeirra hugmynda sem nú verða teknar fyrir innan bæjarins.

Þá fór mikil vinna í að undirbúa Náttúrubarnahátíð sem fram fer undir lok mánaðar og mætti kalla nokkurs konar uppskeruhátíð Náttúrubarnaskólans þar sem krökkunum gefst færi á að kynna starfsemina fullorðnum gestum og gangandi. Hátíðin hefst með því að gestir fremja veðurgaldur til að tryggja að gott veður fáist alla helgina en slíkt er lykilatriði enda fer hátíðin að mestu fram utandyra. Á dagskrá eru meðal annars sjósund, ýmsar smiðjur, náttúrujóga og kennsla í jurtalitun, auk þess sem Svavar Knútur og hljómsveitin Ylja skemmta gestum á tónleikum.

Sauðfjársetrið

Sauðfjársetrið er í um tíu kílómetra akstursfjarlægð frá Hólmavík, með frábært útsýni yfir Steingrímsfjörðinn. Á setrinu er safn og heitir fastasýning þess Sauðfé í sögu þjóðar, en jafnan eru allt að fjórar sýningar í gangi hverju sinni. Auk þess að hýsa Náttúrubarnaskólann er þar rekið hið blómlega kaffihús Kaffi Kind og handverks- og minjagripabúð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert