Saurkólígerlamengun í Varmá

Dauðir fiskar í Varmá í Mosfellsbæ.
Dauðir fiskar í Varmá í Mosfellsbæ. mbl.is/Golli

Fiskadauðann, sem varð 14. júlí síðastliðinn í Varmá í Mosfellsbæ, má líklega rekja til skyndilegrar mengunar í Varmá vegna efnanotkunar á vatnasviði árinnar. Efnið hefur líklega borist í ána um regnvatnslagnir sem taka ofanvatn eða regnvatn í niðurföllum á götum og lóðum. Líklegustu efnin sem um ræðir eru: skordýraeitur, plöntueitur, sveppaeitur, klór, ammoníak og sterk þvottaefni. Ammoníak getur m.a. komið við útskolun á skítahaugum og rotþróm.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. 

Sýnin langt yfir mörkum

Gerlamengun mældist í Varmá en tekin voru fimm sýni 14. og 17. júlí síðastliðinn, tvö í Varmá, tvö í Markalæk og eitt úr ofanvatnsstút frá Reykjalundi. Sýnin í Varmá voru með 760 og 1.000 saurkólígerla í 100 ml. Samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp fyrir útivistarsvæði á fjöldi saurkólígerla í að minnsta kosti 90% tilfella að vera undir 100 pr. 100 ml miðað við lágmark 10 sýni. 

Þótt gerlamengun sé umfram þessi mörk er það mat heilbrigðiseftirlits að almenn útivist sé ekki hætta búin við Varmá og við Markalæk. Ekki er óhætt að drekka vatn í Varmá eða Markalæk frekar en nokkuð annað yfirborðsvatn í þéttbýli eða í grennd við mannabyggð, áréttar heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis. 

Í framhaldinu mun heilbrigðiseftirlitið kanna uppruna gerlamengunar með frekari sýnatökum og skoðunum og fara fram á úrbætur á fráveitumálum þegar uppspretta finnst.

„Mengun í Varmá er af óþekktum uppruna en gæti verið úr rotþróm við Varmá eða röngum tengingum skólps í regnvatn,“ segir í tilkynningu. Hún hefur mögulega komið frá svæðinu beggja vegna Varmár sunnan Reykjalundarvegar að Skammadalsvegi. 

Hvetja fólk til að tjá sig

Heilbrigðiseftirlitið biður þá sem mögulega kunna að hafa upplýsingar um mengunarvald í Varmá frá 13. til 14. júlí að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið. Mikilvægt er að finna orsök fiskadauðans svo hægt sé að koma í veg fyrir að svona atburður endurtaki sig. Þetta kemur jafnframt fram í tilkynningu. 

Fólki er jafnframt bent á að gæta að niðurföllum í götum og á plönum eru tengd við regnvatnskerfið. „Öll mengandi efni sem notuð eru og lenda ofan í þessum niðurföllum geta endað í viðkvæmum viðtökum og valdið tjóni á lífríkinu eins og dæmin sanna. Ef tjöruhreinsa á bíla ætti að gera það á þvottastöðvum eða á bensínstöðvum, ekki við heimahús.“ Þetta segir í tilkynningunni. 

Í júní og júlí var tilkynnt um sjö mengunaratburði í Varmá. Í ánni var meðal annars vart við sápulöður og hvítan lit. Sjá nánar um málið í frétt mbl.is hér. 

Hér er hægt að sjá niðurstöðu sýnatökunnar og hér er hægt að sjá nánar um tilkynningar um mengun í Varmá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert