Segja ána erfiða viðureignar

Alls hafa 180 björgunarsveitarmenn komið að leitinni.
Alls hafa 180 björgunarsveitarmenn komið að leitinni. Eggert Jóhannesson

Um 60 björgunarsveitarmenn taka þátt í leit að manninum sem féll í Gullfoss í gær en erfitt er að eiga við Hvítá. Búið er að koma fyrir neti við Bræðratungubrú og er notast við dróna, kajakbáta og svifnökkva við leitina. 

Leit björgunarsveita hófst klukkan 10 í morgun og gæti staðið langt fram á kvöld að sögn Gunnars Inga Friðrikssonar, stjórnanda svæðisstjórnar. 

Við erum með net við Bræðratungubrúna og þungi leitarinnar er fyrir ofan þetta net, á eyrunum þar fyrir ofan og alveg upp að fossi,“ segir Gunnar Ingi. 

Greint var frá því á mbl.is að maðurinn sem féll í Gullfoss í gær væri erlendur hælisleitandi sem kom til Íslands fyr­ir nokkru.

Gunnar segir ána vera erfiða viðureignar, sérstaklega við fossinn þar sem er mikið gljúfur og erfitt að átta sig á hvernig hún hagi sér. 

Spurður um möguleikann á því að manninn hafi rekið á haf út segir Gunnar það ólíklegt en neðar í ánni breiðist hún út og myndi sandeyrar. Þar skilar sér flest sem í hana fer, að sögn bænda á svæðinu.

Engar vísbendingar hafa fundist enn sem komið er um afdrif mannsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert