Vatnavextir hafa náð hámarki

Myndin er tekin við brúna yfir Eldvatn í gær þegar …
Myndin er tekin við brúna yfir Eldvatn í gær þegar vatnavextir náðu hámarki. Mikil úrkoma síðustu daga orsakaði mikla vatnavexti sem ganga nú hægt niður. Ljósmynd/Þorsteinn Ásgrímsson

Miklir vatnavextir eru í Eldvatni í Vestur-Skaftafellssýslu í kjölfar mikillar úrkomu á svæðinu síðustu tvo daga. Engin hætta stafar af vatninu gagnvart umferð eða nærliggjandi byggð.

Óvenjumikil úrkoma var suðaustanlands og sunnanlands í gær og í fyrradag sem olli því að vatnshæð jókst í ám og vötnum. Í Eldvatni fór vatnshæðin að aukast um klukkan fimm á þriðjudag og náði hámarki að sama tíma í gær. Fór hún úr 180 sentímetrum í 321 sentímetra.

Í gærkvöldi og nótt fór smám saman að draga úr vatnshæðinni og er nú komin í um 280 sentímetra hæð sem er enn vel yfir meðallagi. Ekki er spáð frekari úrkomu á svæðinu og má því búast við að vatnsyfirborðið haldi áfram að lækka þar til það nær meðalrennsli eða tæpum tveimur metrum.

Haukur Pálmarsson hjá Vegagerðinni segir enga hættu stafa af vatnavöxtunum. Þá er brúin við Eldvatn ekki í hættu á að fara né önnur mannvirki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert