„Við viljum trúa á það að réttlætið sigri“

Búið er að áfrýja máli Áslaugar Ýrar Hjartardóttur til Hæstaréttar.
Búið er að áfrýja máli Áslaugar Ýrar Hjartardóttur til Hæstaréttar.

Búið er að áfrýja máli Áslaug­ar Ýrar Hjart­ar­dóttur, sem bar­ist hef­ur fyr­ir því að fá end­ur­gjalds­lausa túlkaþjón­ustu sem hún þarf á að halda, til Hæstaréttar.

Áslaug, sem er með samþætta sjón- og heyrn­ar­skerðingu, stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra (SSH) og ís­lenska rík­inu fyrr í sum­ar fyr­ir mis­mun­un. Á föstu­daginn í síðustu viku voru SSH og ríkið sýknuð í héraði af kröfu Áslaug­ar um að ríkið greiddi fyrir túlkaþjónustu fyrir hana í sumarbúðum daufblindra ungmenna á Norðurlöndunum. 

Áslaug er nú í Svíþjóð í sum­ar­búðunum, sem hún þarf sjálf að standa straum af kostnaðinum við, ólíkt ungmennum á öðrum Norðurlöndum.

„Við viljum trúa á það að réttlætið sigri,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, móðir Ásdísar, í samtali við mbl.is.

„Áslaug var strax alveg ákveðin í að áfrýja. Hún hugsar þetta lengra, málið snýst ekki bara um þessar sumarbúðir eða hana sjálfa. Þetta snýst um svo miklu stærra samhengi,“ segir Bryndís.

Þær voni því að Hæstiréttur túlki lögin Áslaugu í hag. „Því það er mikilvægt fyrir okkur sem borgara að upplifa samfélagið þannig að mannréttindi séu í hávegum höfð og að þau skipti máli fyrir dómstólum. Hins vegar getum við líka sagt að sagan er ekki með okkur. Nýlega fallnir hæstaréttardómar gefa manni ekki mikla von,“ bætir hún við og vísar í mál þeirra Benedikts Hákonar Bjarnasonar og Salbjargar Óskar Atladóttur. „Þar var fjárhagsrammi þjónustuaðilanna látinn ráða, en ekki réttur þeirra til sjálfstæðs lífs.“

Áslaug vilji þó trúa því að réttlætið sigri, þó að hún búi sig jafnframt undir að málið kunni að fara á annan veg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert