Ætla að lagfæra og breikka Gjábakkaveg

Vegurinn er illa farinn.
Vegurinn er illa farinn. mbl.is/Rax

„Það hefur staðið lengi til að gera þetta,“ segir Einar Magnússon, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, þegar hann er inntur eftir því hvort standi til að breikka Gjábakkaveg á Þingvöllum. Rúta fór þar út af veginum á miðvikudag og framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins sagði veginn stórhættulegan.

Einar segir að málið hafi lengi verið til umræðu við Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörð um hvernig sé best að standa að framkvæmdunum. Búið er að sækja um framkvæmdaleyfi en byrjað verður á því að lagfæra veginn þrjá til fjóra kílómetra í austur frá þjónustumiðstöðinni.

Rútur eiga leið í gegnum Þingvelli á hverjum degi.
Rútur eiga leið í gegnum Þingvelli á hverjum degi. mbl.is/Rax

„Þetta verður fyrsti áfanginn og það er stefnt að því að bjóða verkið út í haust,“ segir Einar. „Vegurinn verður breikkaður og styrktur þannig að hann þoli þessa rútubíla,“ bætir hann við en fjöldi stórra bifreiða keyrir í gegnum þjóðgarðinn á hverjum degi.

Spurður hvort það verði ekki snúið að breikka veginn í þjóðgarðinum telur Einar að svo verði. Vegurinn sé þröngur en utan vegar er lítið pláss til breikkunar, vegna gróðurs. „Þetta verður mjög snúið og það er ekki búið að finna alveg út úr því. Það er stefnt að því að gæta mjög að umhverfinu í þjóðgarðinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert