Baráttan við bjarnarklóna

„Þetta er það mikið af plöntum og þær eru stórar …
„Þetta er það mikið af plöntum og þær eru stórar og erfiðar,“ segir Snorri Sigurðsson líffræðingur sem ásamt hópi á vegum Reykjavíkurborgar vinnur að því að hreinsa bjarnarkló á Laugarnesi í dag. Ófeigur Lýðsson

Vinnuhópur á vegum Reykjavíkur vinnur að því að hreinsa bjarnarkló í Laugarnesi. Plöntunni hefur fjölgað mikið síðustu ár og finnst einna helst í einkagörðum. Ef safi úr plöntunni kemst í tæri við húð getur hann valdið slæmum blöðrum og brunasárum.

Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir að bjarnarklóin finnist víða en eitt stærsta svæðið er í Laugarnesi. Þar verður vinnuhópur í dag sem vinnur að því að fjarlægja eins mikið af blómum og tími gefst til.

„Þetta er það mikið af plöntum og þær eru stórar og erfiðar,“ segir hann og bætir við að í forgangi sé að skera ofan af þeim og koma þannig í veg fyrir frædreifingu. „Til að ná sem mestum árangri núna erum við að einbeita okkur að því að því að skera ofan af plöntunum og taka blómin.“

Sprenging hefur orðið í fjölgun plöntunnar síðustu ár en safi …
Sprenging hefur orðið í fjölgun plöntunnar síðustu ár en safi úr henni getur valdið bruna ef hann kemst í tæri við bera húð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson


„Þetta er eilífðarverkefni“

Snorri segir að á síðustu árum hafi orðið sprenging í fjölgun bjarnarklóarinnar. „Þetta er orðið erfitt viðfangsefni fyrir borgina og fyrir fólk sem er með þetta í görðunum sínum.“ Þeim hefur ekki tekist að taka eins vel á í verkinu og þeir hefðu viljað meðal annars vegna skorts á sumarstarfsfólki á garðyrkjusviði.

„Í fyrra tókum við mjög góðan skurk,“ segir hann en atlagan í Laugarnesi í dag er mjög mikilvæg ásamt því að fleiri verða gerðar í kjölfarið. Samt mun ekki takast að uppræta plöntuna í ár og mun hún eflaust stinga upp kollinum á næsta ári. „Þetta er eilífðarverkefni.“

Í samvinnu við íbúa í baráttunni

Megnið af plöntunni finnst inni á einkalóðum og hvetur hann fólk sem heldur að það sé með plöntuna í garðinum hjá sér að hafa samband. „Við vitum um marga staði en það eru líka staðir sem við vitum ekki um,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að vinna saman með íbúum að því að uppræta bjarnarklóna.

Snorri segir að mikilvægt sé að vinna saman með íbúum …
Snorri segir að mikilvægt sé að vinna saman með íbúum að því að uppræta bjarnarklóna en megnið af henni finnst í einkagörðum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson


Þá hefur einnig verið mikil fjölgun plöntu sem kallast húnakló og er náskyld bjarnarklónni. „Hún er miklu minni en getur verið varasöm,“ segir Snorri og bætir við að hún breiðir stórtækt úr sér í einkagörðum, þá einkum í Vesturbænum.

Inniheldur efni sem valda bruna

Í plöntunum er safi sem býr yfir efni sem geta valdið bruna ef hann kemst í tæri við húð. „En plantan ein og sér ekki hættuleg ef maður er ekkert að vesenast í henni,“ segir Snorri. Efnið er sérstaklega skaðlegt þegar sólin skín og því meiri líkur á því að fá alvarlegan bruna ef maður fær safann á húðina þegar veðrið er sólríkt.

 „Fólk sem hefur þetta í garðinum sínum og vill vaða í þetta, bara alls ekki fara á sólríkum degi,“ segir Snorri og bætir við að á degi eins og í dag séu fullkomnar aðstæður. Þá sé alltaf mikilvægt að ekki sjáist í bera húð þegar unnið er með plöntuna auk þess að vera með varnargleraugu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert