Berghlaupið skoðað í þrívídd

Skjáskot/Svarmi

Sprungan sem myndast hefur í Litlahöfða á Fjallabaki er um 155 metra löng og er er flatarmál brotsins um 3.800 fermetrar, eða sem nemur hálfum fótboltavelli. Áætlað rúmmál brotsins er á bilinu 160 til 400 þúsund rúmmetrar, en það fer eftir því við hvaða stærð brotsins er miðað. Þetta segir Tryggvi Stefánsson, forstjóri fjarkönnunarfyrirtækisins Svarma.

Fyrirtækið sérhæfir sig í þrívíddarlíkanagerð og fóru starfsmenn fyrirtækisins að fjallinu á mánudaginn og flugu dróna yfir það. Í framhaldinu gerðu þeir líkan af brotinu sem sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

Tryggvi segir að þeir hafi notast við flugvéladróna, en þeir komist yfir stærra svæði en hefðbundnir þyrilvængjadrónar. Settu þeir sjálfir saman þann dróna sem notaður var í verkefnið. Aðeins tók um eina klukkustund að taka myndefnið, en svo var notast við um 300 myndir til að setja saman heilt líkan af fjallinu.

Spurður um tæknina á bak við líkanagerðina segir hann að hægt sé að nota hana í alls konar tilgangi. Þannig hafi fyrirtækið meðal annars unnið við fjarkönnun þegar fara eigi í framkvæmdir á ferðamannastöðum, virkjanir og líka fyrir landslagsarkitekta. Með slíkum líkönum sé hægt að fá mun nákvæmari magntölur en ella. Þá hafi þeir unnið að rannsóknarverkefni í fyrra þar sem skoðað var hvernig birki dreifist um Skeiðarársand, en þá er notast við fjölsviðamyndavélar á innrauða sviðinu til að meta ástand og tegund gróðurs.

Myndskeiðið má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert