„Hér hristist allt og skalf“

Oddný Arnarsdóttir segir skjálftann hafa verið einn þann öflugasta sem …
Oddný Arnarsdóttir segir skjálftann hafa verið einn þann öflugasta sem hún hafi fundið og eftirskjálftarnir í kjölfarið séu búnir að vera kröftugir. Ljósmynd/Oddný Arnarsdóttir

Tveir létust á grísku eyjunni Kos eftir jarðskjálfta af stærðinni 6,7  í nótt sem átti upptök sín í hafinu 16 km austur af eyjunni. Oddný Arnarsdóttir er í fríi á Kos ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Hún segir þau hafa orðið vel vör við skjálftann sem varð klukkan tvö í nótt að staðartíma, en fjölskyldan eyddi nóttinni á sólbekkjum í sundlaugargarðinum ásamt öðrum hótelgestum.

AFP-fréttastofan hefur eftir grískum fjölmiðlum að miklar skemmdir hafi orðið á Kos og margir slasast. Þeir sem létust voru sænskur og tyrkneskur ferðamaður, en eyjan er vinsæll ferðamannastaður.

„Klukkan tvö í nótt vaknaði ég bara við einn mesta jarðskjálfta sem ég hef fundið og hef ég þó fundið þá nokkra,“ segir Oddný og kveður allt hafa leikið á reiðiskjálfi.

„Jarðskjálftinn stóð mjög lengi og hér hristist allt og skalf. Svo fór maður að heyra öskur hér allt í kring og allir ruku út.“ Nóttinni eyddi fjölskyldan síðan, líkt og áður sagði, á sólbekkjum með teppi og kodda. „Okkur var svo hleypt inn á herbergið aftur fyrir svona þremur tímum.“

Töluverðar skemmdir á hótelinu

Hún segir þeim óneitanlega hafa brugðið við skjálftann. „Þetta er fjölskyldustaður þannig að hér er mikið af fólki með börn og við erum náttúrlega öll kannski svolítið hrædd um börnin okkar. Maður á aldrei von á þessu.“

Fólk stendur fyrir utan eina bygginganna sem skemmdust á Kos …
Fólk stendur fyrir utan eina bygginganna sem skemmdust á Kos í jarðskjálftanum í nótt. AFP

Miklar skemmdir urðu á Kos og eru þó nokkrar skemmdir á hótelinu þó að það sé, að sögn Oddnýjar, nýlegt og frekar sterkbyggt miðað við sum eldri hús eyjarinnar. Hún segir allt hafa gengið til hjá sundlauginni og það sama megi segja um gangstéttir í sundlaugargarðinum og í kring. „Þar sér maður alveg hvernig hefur brotnað upp úr. Það urðu engar skemmdir hins vegar á herberginu okkar, en það eru engu að síður skemmdir á einhverjum herbergjum.“

Oddný bætir við að híbýli þeirra standi ofarlega í hlíðinni. „Þannig að við fundum ekki fyrir flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið.“ Lítil flóðbylgja hafi komið og fólk verið beðið að vera ekki nálægt ströndinni og fara ofar í hlíðina ef hægt væri. „Svo komu og eru enn að koma margir eftirskjálftar og þeir hafa verið mjög harðir, allt upp í fjögur stig.“

Það var því lítið um svefn í nótt, en Oddný ber hótelstarfsfólki vel söguna og segir það hafa haldið gestum vel upplýstum meðan á þessu stóð. „Þau voru yndisleg og báru fram samlokur og drykki á meðan við vorum þar. Litlu börnin sváfu bara á meðan við foreldrarnir sváfum aðeins minna. Síðan var látið vita, þegar búið var að fara yfir hótelið, að það væri öruggt fyrir okkur að fara inn aftur og flestir sneru þá aftur til herbergis.“

Tilbúin að hlaupa í dyraopið

Eftir tveggja tíma svefn hafi síðan komið öflugur eftirskjálfti og því segir hún þau nú vera með hurðina opna og tilbúin að hlaupa í dyraopið.

Oddný og fjölskylda eru á Kos í hópi tíu Íslendinga og segir hún blessunarlega í lagi með þau öll. Sumarleyfisdvölin á eyjunni er nú hálfnuð og segir hún þau eftir að ræða hvað þau geri í framhaldi af skjálftanum. „Manni finnst þetta náttúrlega ekkert þægilegt og þekkir alveg að það geta komið aðrir stórir skjálftar í kjölfarið, en svo er líka alveg glatað að fara heim.“  Næsta verk sé því að fara niður í afgreiðslu hótelsins og fá betri upplýsingar áður en þau ræði saman um framhaldið.

Fólk þyrptist út á götur á eyjunni Kos eftir skjálftann. …
Fólk þyrptist út á götur á eyjunni Kos eftir skjálftann. Öflugir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert