Ingibjörg Sólrún tekin til starfa

Ljósmynd/ÖSE

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifaði í gær undir samning til þriggja ára sem framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE. Stofnunin er lítt þekkt almenningi þar sem hún er meira að beita sér gegn aðildarríkjum en ekki opinberlega. 

Helsta verkefni stofnunarinnar er kosningaeftirlit hennar, en á síðasta ári fór stofnunin í 15 eftirlitsferðir vegna kosninga. Stofnunin hefur sinnt eftirlitinu í 25 ár og það þróast mikið frá þeim tíma, þegar það beindist fyrst og fremst að framkvæmd kosninganna á kjördegi og að þær færu fram með lýðræðislegum hætti, en í dag er meira horft til undanfara kosninganna, hvernig fjölmiðlar eru notaðir, hvernig ríkisvaldið er nýtt og horft til annarra þátta sem lúta að jöfnu aðgengi frambjóðenda að opinberum fjármunum og miðlum.

Hjá stofnuninni starfa 150 manns og hefur hún aðsetur í Varsjá, Póllandi. Þar verður Ingibjörg Sólrún með skrifstofu og flytur hún út til Póllands í lok ágúst, byrjun september. Ingibjörg Sólrún á farsælan pólitískan feril að baki. Hún var borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra og síðar yfirmaður UN Women í Afganistan.

Ljósmynd/ÖSE

Reynir að greiða lýðræðislegan veg hópa sem á því þurfa að halda

Ingibjörg Sólrún segir að kosningaeftirlitið sé lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar en af öðrum verkefnum má nefna að stofnunin gefur umsóknir um lagafrumvörp sem snúa að stjórnkerfinu, kosningum, stjórnarskrá, dómstólum eða öðrum grundvallarstoðum réttarríkisins. Stofnunin leitast við að tryggja að lýðræðislegir stjórnarhættir séu virtir.

„Það getur líka verið fólgið í því að auka þátttöku ýmissa hópa sem hafa ekki fulla aðkomu að stofnunum samfélagsins. Ungt fólk, konur eða innflytjendur,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Þá segir hún að hatursglæpir og hatursorðræða sé hvort tveggja ofarlega á baugi hjá stofnuninni um þessar mundir. „Við vinnum að því með aðildarríkjunum að koma í veg fyrir hatursglæpi sem því miður hafa færst í aukana á undanförnum árum.“

Fjórir af fjórum nýjum yfirmönnum ÖSE frá Vestur-Evrópu

Ingibjörg tók formlega við stöðunni í gær en í dag skrifar hún undir samninginn. Hún segir að handan við hornið sé árlegur fundur samtakanna þar sem aðildarríkin fara yfir það hvernig þeim hafi gengið að vinna að framkvæmd þeirra skuldbindinga sem þau hafa undirgengist. Næsti mánuður fer að mestu í undirbúning þessa fundar, segir Ingibjörg en hann hefst 11. september næstkomandi. Þúsund manns mæta til fundarins, en auk aðildarríkjanna mæta til fundarins fulltrúar frjálsra félagasamtaka alls staðar að.

Spurð út í deilur innan fastaráðs ÖSE um skipan hennar í stöðuna segir Ingibjörg Sólrún að tekist hafi verið á um skipan í fjórar yfirmannsstöður innan ÖSE og hafi þær deilur fyrst og fremst verið landfræðilegs eðlis. 

„Þetta hafði held ég ekki með persónur að gera, heldur að tryggja landfræðilega dreifingu,“ segir Ingibjörg Sólrún en svo fór að allir fjórir yfirmennirnir eru vesturevrópskir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert