„Nú? Er Ísland eyja?“

Ferðamenn við Skjaldbreið. Fjöldi fólks gerir sér ferð til Íslands …
Ferðamenn við Skjaldbreið. Fjöldi fólks gerir sér ferð til Íslands til þess að sjá þetta náttúruundur. mbl.is/Golli

Nær strandlengjan allan hringinn í kringum eyjuna? Er mikið um jökla í ár? Hvenær kviknar á norðurljósunum? Þær eru oft kostulegar spurningarnar sem leiðsögumenn á Íslandi fá frá erlendum ferðamönnum. Á fjörlegum þræði Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar deila nú leiðsögumenn skemmtilegum reynslusögum úr bransanum.

Sumir ferðamenn virðast ekki átta sig á að hér sé ekki eldgos í gangi öllum stundum. Því hafa þeir spurt hvaða tíma árs sé best að heimsækja landið til að sjá slíkt gos.

Hvar er næsta eldgos sem hægt er að skoða? Ferðamenn …
Hvar er næsta eldgos sem hægt er að skoða? Ferðamenn virðast sumir halda að hér alltaf að minnsta kosti eitt fjall að gjósa. mbl.is/Rax

Leiðsögumaður um Reykjanesskaga fékk t.d. ítrekað spurningar frá breskum hjónum um hvort þau myndu sjá eldgos og hvort von væri á slíku. „Nokkrum dögum seinna barst mér erindi frá ferðaskrifstofunni þar sem þau höfðu sent harðort bréf þangað til að kvarta yfir því að þau hefðu ekki séð nein „active volcanoes“ eins og þau töldu að þeim hefði verið lofað með nafni ferðarinnar.“

Hvar er Loll-búðin?

Annar leiðsögumaður segir sögu af skemmtilegum misskilningi varðandi nafn verslunar. „Hvar finn ég næstu Loll-búð?“ var hann spurður. Leiðsögumaðurinn kom af fjöllum. „Þær eru grænar og út um allt.“ Eftir töluverðar pælingar kom loksins í ljós að maðurinn var að spyrja um 10/11 búðirnar en hafði lesið „Loll“ út úr lógóinu.

Loll-búðina var hvergi að finna.
Loll-búðina var hvergi að finna.

Fjölmargir ferðamenn koma hingað til lands í þeirri von að sjá norðurljósin. Þeir biðja þá stundum um hótelbergi með glugga til norðurs til að sjá ljósin betur. Þá eru þeir margir hverjir ekki klárir á því hvenær slík ljós sjást á himni og segjast gjarnan vilja koma til Íslands og sjá í einni og sömu ferðinni norðurljós og miðnætursólina.

Þá er algengt að ferðamenn spyrji klukkan hvað norðurljósin kvikni. Einn leiðsögumaður deilir sögu af því er hann kom inn á hótel um kl. 18 í desember og spurði gesti hvort þeir vildu ekki sjá norðurljósin. „Einn leit á úrið sitt og sagði: Jú, en þau byrja ekki fyrr en kl 21.“ Leiðsögumaðurinn bendir á að þegar samræðurnar hafi átt sér stað hafi ljósin dansað sem aldrei fyrr um himininn. Fleiri taka undir þetta og segja ferðamenn marga búast við því að norðurljós kvikni á ákveðnum tíma. Þeir kvarti svo ef það gerist ekki eða ef ljósin eru ekki eins björt og á ljósmyndum.

Aðrir kvarta undan því að ljósin séu svo mikil og svo lengi að ekki sé nægur tími til að sofa.

Ferðamönnum finnst sumum hverjum íslenskir jöklar of skítugir.
Ferðamönnum finnst sumum hverjum íslenskir jöklar of skítugir. mbl/Sigurður Bogi

Vantar regnbogann

Yfir fleirum íslenskum náttúruundrum er kvartað. Einn leiðsögumaður fékk t.d. að heyra það að það vantaði regnbogann yfir Gullfoss. Þá segja nokkrir sögur af því að ferðamönnum hafi fundist jöklarnir íslensku of skítugir og hafi jafnvel ætlað að tilkynna Green Peace um málið.

Leiðtogi hóps ferðamanna við Sólheimajökul spurði íslenskan leiðsögumann hvort það væru margir jöklar í ár, rétt eins og þeir kæmu og færu reglulega.

Leiðsögumaður á hálendinu deildi þessari sögu: „Mætti ferðamanni á hálendinu um daginn sem spurði: „Hvað heitir þessi pirrandi fugl sem er svartur á kviðnum, með hvíta rönd og gulbrúnn á bakinu? Pípir endalaust og eltir mann, mjög pirrandi.“

Þá segir einn frá því að bandarískum ferðamanni hafi ekki þótt mikið til Strokks koma. Gos hans væri of stutt. Betra hefði verið að hafa stanslausan vatnsstraum.

Þarf alltaf að lyfta fótunum

Samgöngumálin vefjast líka fyrir sumum. Leiðsögumaður segir frá því að hann hafi ekið með par út á land og að konan hafi verið einstaklega hrædd við að aka malarvegi. Parið hafi verið með ákveðna staði til að sjá á óskalistanum en hafði ekki áttað sig á því að malarvegir væru á Íslandi. Það átti erfitt með að sætta sig við að ekki væri hægt að fara til allra staða á malbiki.

Erlendir ferðamenn eru sumir hverjir ekki sérstaklega sleipir í landafræðinni. …
Erlendir ferðamenn eru sumir hverjir ekki sérstaklega sleipir í landafræðinni. En þá er um að gera að spyrja. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Austurrískur maður sem gekk með íslenskum leiðsögumanni upp á Hrútsfjallstinda fyrir allnokkrum árum sagði: „Mér líkar ekki við fjöll sem eru upp og niður.“ Fannst honum nokkuð ósanngjarnt að þurfa að ganga upp í móti helming leiðarinnar. „Ég benti honum á að jafnvel í hinum víðfrægu Ölpum væru til fjöll sem lægju bæði upp og niður.“

Ekki eru allir klárir á dýraríki Íslands. Sumir vilja sjá husky-hunda á hálendinu. Aðrir biðja um að fá að skoða ísbirni.

Franskir ferðamenn sem fóru í tíu daga göngu um Syðra-Fjallabak kvörtuðu undan göngustígunum á hálendinu sem þeir sögðu örmjóa og að grjót væri út um allt. „Maður þarf alltaf að vera að lyfta fótunum,“ sögðu þeir.

Ferðamenn kvörtuðu undan stígum á hálendi Íslands og sögðust alltaf …
Ferðamenn kvörtuðu undan stígum á hálendi Íslands og sögðust alltaf þurfa að vera að lyfta upp fótunum. mbl.is/Golli

Einhverjir þekktu sögur af ferðamönnum sem sögðust ekki geta sofið á Íslandi. Þögnin væri of mikil.

Hversu lengi að keyra til Evrópu?

Þá er landafræðiþekkingin ekki upp á marga fiska hjá sumum. Einn ferðamaður stóð áttavilltur með landakort úti á Granda og var að reyna að átta sig á hvar best væri að ganga upp á Snæfellsjökul. Par spurði sama leiðsögumann hvort fært væri yfir Kjöl. Þau ætluðu að ganga þann fjallveg. Þetta var í nóvember og snjór yfir öllu og ófært.

„Nær þessi strandlengja allan hringinn í kringum eyjuna?“ er spurning sem einn segist hafa heyrt.

Annar segist hafa fengið spurninguna: „Hversu langan tíma tekur að keyra til Evrópu?“ Því var svarað að slíkt væri ómögulegt, viðkomandi væri staddur á eyju í Norður-Atlantshafi. Þetta fannst ferðamanninum stórmerkilegt og spurði: „Nú, er Ísland eyja?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert