Salan aukist frá fyrri stórmótum

Þorvaldur í Errea á Íslandi segir sölu á búnaði tengdum …
Þorvaldur í Errea á Íslandi segir sölu á búnaði tengdum landsliðinu hafa aukist mikið í kringum EM kvenna. mbl.is/Golli

„Treyjusalan hefur aukist mjög, bæði í aðdraganda mótsins og núna þegar það er farið í gang,“ segir Þorvaldur Ólafsson, eigandi Errea á Íslandi, um treyjusölu í kringum Evrópumót kvenna í knattspyrnu. Þegar Morgunblaðið spjallaði við Þorvald var hann önnum kafinn við það að útbúa búninga fyrir íslenska stuðningsmenn á leið til Hollands.

„Það er búið að vera alveg brjálað að gera hjá okkur, sumrin eru auðvitað okkar vertíð enda sumarmótin og EM í gangi. Þetta er bara fjör, okkur finnst þetta mjög skemmtilegt.“

Salan hefur dreifst jafnt

Hann segir söluna ekki jafnmikla og í kringum Evrópumót karla síðasta sumar en hún sé talsvert meiri en í kringum fyrri stórmót stelpnanna. „Það er ekki hægt að líkja þessu við söluna í kringum karlaliðið í fyrra enda var æðið alveg svakalegt þá. Salan hefur þó verið miklu betri en á síðustu stórmótum stelpnanna og aukist mjög mikið.“

Spurður hvaða merking hafi selst best aftan á treyjurnar segir Þorvaldur það hafa dreifst jafnt. „Þetta eru aðallega hópar og fjölskyldur sem hafa keypt treyjur en ég get ekki sagt að einhver ein standi upp úr. Ég held að á heildina litið sé þetta nokkuð jafnt.“

Þorvaldur segir að Errea á Íslandi selji allan varning sem tengist íslenska landsliðinu. „Við erum með allt sem tengist landsliðinu; markmannsbúninga, landsliðstreyjur, háskólapeysur, derhúfur og margt fleira,“ segir Þorvaldur og bætir við að auk þess að selja varning sjái fyrirtækið landsliðinu fyrir búnaði meðan á Evrópumótinu stendur.

„Við sjáum um búnað hjá öllum landsliðum Íslands. Evrópumótið í sumar er engin undantekning, við sjáum um allt frá undirfatnaði til vindjakka,“ segir hann en á mótið í ár tók landsliðið með sér um 7.000 hluti.

Þorvaldur segir að þegar haldið er á eins stórt mót og Evrópumót kvenna er séu teknar með að lágmarki 138 keppnistreyjur. Treyjurnar eru allar sérmerktar og teknar með í handfarangri starfsmanna KSÍ.

„Við dreifðum þessu á þrjár flugferðir. Starfsmenn KSÍ tóku með sér treyjurnar í handfarangri svo þær kæmust örugglega á áfangastað enda mjög mikilvægt að þær komist þangað. Treyjurnar eru allar sérmerktar hverjum leik og leikmanni. Þetta gekk allt mjög vel og treyjurnar komust örugglega til Hollands,“ sagði Þorvaldur að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert