Verslunarhúsnæði rís við Akrabraut

Framkvæmdir við Akrabraut 1 í Garðabæ.
Framkvæmdir við Akrabraut 1 í Garðabæ.

Við Akrabraut 1 í Garðabæ eru hafnar framkvæmdir á lóð þar sem um 1.400 fermetra verslunarhúsnæði rís. Íbúi í nágrenninu er ekki sáttur við framkvæmdirnar sem hann segir að ekki hafi verið greint frá í kynningarefni á aðalskipulagi ársins 2016 - 2030 í vor. Verslunarhúsnæðið er á lóð sem er hins vegar inni á svæði sem er í landnotkunarflokki íbúðasvæði í aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016.

„Mér finnst hjákátlegt að þegar aðalskipulagið var kynnt að ekki væri vísað í deiliskipulag líka á svæðinu sem er miklu nákvæmara. Mér finnst þetta villandi framsetning og hún endurspeglar ekki það sem verður á svæðinu. Það hefði alveg mátt benda á að þarna myndi rísa verslunarhúsnæði brátt sem er samt sem áður á svæði sem gert er ráð fyrir íbúabyggð og er merkt fjólubláu,“ segir Agnes Vala Bryndal, íbúi í Eyktarhæð, sem er á móti byggingarsvæðinu hinum megin við Bæjarbraut. 

Hún tekur fram að umrætt kynningarefni á aðalskipulagi Garðabæjar 2016 til 2030 hafi verið vel heppnað, en að í því hefði mátt benda á að hægt væri að kynna sér deiliskipulag á heimasíðu bæjarins sem endurspeglar ítarlegar hvernig uppbygging sé fyrirhuguð á hverju svæði fyrir sig.

Frá árinu 2003 hefur blönduð byggð verið inni á deiliskipulagi fyrir svæðið og er samþykkt á aðalskipulagi sem gildir á svæðinu til ársins 2016. Í blandaðri byggð er gert ráð fyrir íbúðum, verslun og þjónustu, þjónustustofnunum og opnum svæðum til sérstakra nota.

„Eins og þetta komi okkur ekki við“

„Þeir kynntu þetta ekki fyrir okkur íbúunum sem búum hinum megin við Bæjarbraut. Það er eins og þetta komi okkur ekki við,“ segir Agnes. Akrabraut 1 liggur við fimm arma hringtorg og verður verslunin Krónan þar til húsa, að sögn Agnesar. Hún bendir á umferðin eigi eftir að aukast umtalsvert þegar verslunin opnar. „Í dag er rosalega mikil hljóðmengun af hringtorginu. Við þetta bætist enn einn umferðartappinn í Garðabæ en það er engin önnur leið út úr þessu hverfi,“ segir Agnes.

Samþykktu ekki bensíndælustöð á sömu lóð 

Þess má geta að árið 2012 óskaði Atlantsolía eftir því að reisa bensínstöð á sömu lóð. Agnes bendir á að íbúar í nágrenninu hafi lagst alfarið gegn því á sínum tíma og bentu á að dælustöðin væri við hlið leikskólans og það færi ekki saman við aukna bílaumferð. Í fundargerð skipulagsnefndar Garðabæjar frá 28. mars árið 2012 er dælustöð ekki sögð rúmast innan byggðar sem er flokkuð sem íbúðabyggð í aðalskipulagi. „Nefndin telur ýmsa ókosti við staðsetningu bensíndælustöðvar á lóðinni og má þar nefna álag á umferðartengingar inn í hverfið og nálægð við íbúðarhús.“ Þetta kemur fram í fundargerðinni.

„Það er fullt af fólki í kringum mig sem er mjög reitt yfir þessari framkvæmd. Þarna er verið að byggja upp eitthvað sem á bæði eftir að valda ónæði og er ávísun á einhvern bastarð. Það er nær að byggja frekar íbúðir en verslunarhúsnæði eins og húsnæðismarkaðurinn er um þessar mundir,“ segir Agnes.

Tillaga að aðalskipulagi Garðabæjar.
Tillaga að aðalskipulagi Garðabæjar.

Umferð sem er þegar á svæðinu

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti byggingarleyfi fyrir verslunarhúsnæðið 20. júní síðastliðinn. Eigandi lóðarinnar, sem er alls 4.820 fermetrar að stærð, er Festi-fasteignir ehf. Verslunin tekur um 30% lóðarinnar. Húsnæði verslunarinnar er á einni hæð og með flötu þaki.    

„Verslunin mun alltaf draga til sín einhverja umferð. Hins vegar er umferð á svæðinu og hún mun ekki aukast sem neinu nemur,“ segir Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari Garðabæjar, spurður hvort umferðin muni aukast á svæðinu þegar verslunin opnar.

Hann bendir á að umferðin muni ekki hafa nein áhrif inn í hverfunum sjálfum heldur muni þeir sem þegar keyra eftir þessum vegi nýta sér þjónustuna í versluninni.

Það er í raun og veru ekki mikill munur þar á,“ segir Guðjón, spurður hver munurinn er á starfsemi verslunar og bensínstöðvar sem var sögð að myndi hafa áhrif á „álag á umferðartengingar inn í hverfið og nálægð við íbúðarhús.“ 

Í þessu samhengi nefnir Guðjón að að árið 2012 hafi orðið „breytt menning“ gagnvart bensíndælustöð sem ekki þótti eiga heima í hverfinu í nálægð við leikskóla. Verslun með matvöru fellur betur að íbúðabyggð og þjónustu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert