Vöknuðu við að húsið lék á reiðiskjálfi

Ferðamenn á eyjunni Kos bíða hér fyrir utan flugvöll eyjarinnar, …
Ferðamenn á eyjunni Kos bíða hér fyrir utan flugvöll eyjarinnar, eftir að flugferðum var frestað í kjölfar skjálftans. AFP

Sóley Kaldal, sem dvelur nú á grísku eyjunni Rhodos, varð vel vör við jarðskjálftann sem varð úti fyrir ströndum Grikklands í nótt. Jarðskjálftinn mældist 6,7 að styrk og kostaði tvo ferðamenn á eyjunni Kos lífið. Hundruð særðust þá í skjálftanum og skemmdir eru töluverðar bæði á Kos og eins á ferðamannastaðnum Bodrum í Tyrklandi.

„Við vorum öll frekar nýsofnuð,“ segir Sóley í viðtali við útvarpsstöðina K100. „Við vöknum síðan við það að húsið gjörsamlega leikur á reiðiskjálfi.“ Sóley, sem er öryggis- og áhættustjórnunarverkfræðingur hjá Almannavörnum og hefur m.a. verið að skoða náttúruhamfarir, segir skjálftann hafa verið frekar snarpan.

„Ég man eftir Suðurlandsskjálftanum, en þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi svona sterkan skjálfta,“ segir Sóley.

Töluverðar skemmdir urðu á þessum bátum sem lágu við festar …
Töluverðar skemmdir urðu á þessum bátum sem lágu við festar í Bodrum í skálftanum. AFP

Húsið hreyfði sig með skjálftanum

Hún er stödd á Rhodos til að að taka þátt í námskeiði og segir þau vera fjögur sem hafist við í gömlu grísku húsi sem stendur í fjallshlíð. Líkt og áður segir lék húsið á reiðiskjálfi og segir hún þeim hafa brugðið nokkuð.

„Ég var ekki alveg róleg. Ég veit að það geta komið eftirskjálftar og það er visst ferli sem fer í gang þegar náttúruhamfarir verða.“

Þau hafi hins vegar talið sig vera öruggust í húsinu þar sem þau dvelja, en það er aldagamalt steinhús. „Maðurinn minn er arkitekt og hann horfði á húsið hreyfast með skjálftanum, þannig að það er líkast til skásti staðurinn, að vera inni í skjálftanum.“

Alltaf hætta á flóðbylgju nærri sjó eftir skjálfta

Uppi í fjallshlíðinni hafi þau heldur ekki þurft að hafa áhyggjur af flóðbylgju, en flóðbylgjuviðvörun var gefin út og kom flóðbylgja upp að ströndum Tyrklands í nótt. „Það er nokkuð sem maður verður alltaf að passa ef maður lendir í jarðskjálfta nálægt sjó, að þá getur verið von á flóðbylgju.“

Odd­ný Arn­ars­dótt­ir, sem er með fjöl­skyld­unni í fríi á Kos, varð einnig vel vör við skjálftann. Er mbl.is ræddi við hana fyrr í morgun sagði hún hót­elið hafa leikið á reiðiskjálfi, en fjöl­skyld­an eyddi nótt­inni á sól­bekkj­um í sund­laugarg­arðinum.

Skjálftans varð líka vart í tyrknesku borginni Bodrum og segir BBC nokkra hafa slasast þar er þeir reyndu að flýja skjálftann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert