24 stiga hiti í suðlægum áttum

Svona er spáin á hádegi í dag. Sólin mun skína …
Svona er spáin á hádegi í dag. Sólin mun skína norðanlands. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Áfram eru það Norðlendingar og ferðamenn á Norðausturlandi sem fá úthlutað besta veðrinu. Í dag verður bjart að mestu norðan heiða og hiti allt að 24 stigum. Annars staðar á landinu verður skýjað að mestu með dálítilli vætu og heldur svalara í veðri.

Veðurstofa Íslands varar hins vegar við hvössum vindhviðum (25-35 m/s) á norðanverðu Snæfellsnesi í dag. Slíkt er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Búist er við 10-18 m/s suðvestantil á landinu í dag. 

Heldur hægari suðlæg átt verður á morgun og þungbúið vestanlands, en annars víða léttskýjað. Þó má búast við þokubökkum við sjávarsíðuna hér og þar. Næstu daga er síðan spáð suðlægum áttum og áframhaldandi hlýindum, en dálítilli vætu sunnan- og vestantil.

Veðurvefur mbl.is. 

Veðurspá næstu daga er þessi:

Á morgun, sunnudag:
Suðlæg átt 5-13 m/s. Víða léttskýjað en skýjað að mestu og dálítil væta sunnan- og vestanlands. Heldur hvassara með rigningu á Snæfellsnesi. Hiti 13 til 23 stig, hlýjast verður norðaustantil. 

Á mánudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, hvassast verður suðvestanlands. Víða bjart, en sums staðar þokuloft við ströndina. Áfram verður hlýtt í veðri. 

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt 5-13 m/s, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en heldur hvassara syðst um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á miðvikudag:
Austlæg átt og víða bjart, en skýjað og þokuloft við austurströndina. Hiti 10 til 20 stig. 

Á fimmtudag:
Norðaustlæg átt með dálítilli vætu, einkum norðaustantil. Skýjað með köflum og þurrt að mestu vestanlands. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á suðvesturhorni landsins. 

Á föstudag:
Norðlæg átt, skýjað og dálítil væta með köflum. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert