Fasteignasalar ganga Laugaveginn

Hópurinn mun ganga Laugaveginn svokallaða, frá Landmannalaugum og yfir í …
Hópurinn mun ganga Laugaveginn svokallaða, frá Landmannalaugum og yfir í Þórsmörk.

Um helgina koma til landsins 85 fasteignarsalar frá Kanada. Þeir munu leggja upp í sex daga göngu frá Landmannalaugum til Þórsmerkur um Laugaveg og síðan frá Þórsmörk til Skóga um Fimmvörðuháls.

Hópurinn er á vegum The Royal LePage Shelter Foundation sem er styrktarfélag tengt einu stærsta fasteignafélagi Kanada, Royal LePage. Félagið styrkir kvennaathvörf fyrir konur og börn sem verða fyrir heimilisofbeldi. Fasteignasalarnir og Phil Soper, forseti Royal LePage, taka þátt í viðamikilli söfnun sem ber nafnið „Iceland Challenge for Shelter“ þar sem ágóðinn rennur til kvennaathvarfa víðsvegar um Kanada.

Í fréttatilkynningu kemur fram að til þess að taka þátt í söfnuninni lögðu allir fasteignasalarnir upp með að safna um 5000 Kanadadollurum, um 420 þúsund krónum, fyrir athvörf í sínu nærumhverfi. Þeir leggja sjálfir út fyrir öllum ferðakostnaði til landsins og kostnað sem hlýst af göngunni sjálfri. Með því að fara þessa leið hefur félaginu tekist að safna yfir 625.000 Kanadadollurum sem eru yfir 52 milljónir íslenskra króna til kvennaathvarfa.

Fasteignafélagið leggur til allan kostnað við safnanirnar svo allur ágóði sem safnast rennur beint til athvarfanna. Frá 1998 hefur félagið The Royal LePage Shelter Foundation safnað yfir 24 milljónum Kanadadollara til hjálpar kvennaathvörfum um allt Kanada og stuðlað að fræðslu til að sporna við heimilisofbeldi.

St. Georges Platinum and Base Metals, móðurfélag íslenska gullleitar fyrirtækisins Iceland Resources, mun leggja málstaðnum lið og gefa til kvennaathvarfs í Kanada og Iceland Resources mun leggja málstaðnum lið hér á landi og gefa fé til Kvennaathvarfsins á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert