„Blómstrandi óskapnaðurinn“ er Íslandsvinur

Regnkápa drottningar er umtöluð í Danmörku.
Regnkápa drottningar er umtöluð í Danmörku. Instagram/Det danske kongehus

Lífleg regnkápa, sem Margrét Þórhildur Danadrottning klæddist fyrr í vikunni, hefur valdið nokkrum usla í Danmörku og hafa Danir verið iðnir við að tjá sig um flíkina á samfélagsmiðlum. Svo virðist að þetta sé sama kápan og drottningin skrýddist þegar hún kom hingað til lands í opinbera heimsókn árið 1994.

Hold da kæft - hvor er den grim

„Er þetta grín?“ „Þetta er eins og sprenging í stúdíói listmálara.“ „Hættið nú alveg - mikið er þetta  ljótt. (Hold da kæft - hvor er den grim).“ „Þvílík sérviska. Nú veit ég að sumarið er komið - blómstrandi óskapnaðurinn og gula gúmmíið eru mætt á staðinn.“

Danir spara ekki stóru orðin á samfélagsmiðlunum þegar kemur að því að lýsa blómum skrýddri regnkápu sem Margrét Þórhildur Danadrottning klæddist nýverið við árlega sumarmyndatöku dönsku konungsfjölskyldunnar við Grásteinshöll fyrr í þessari viku. Við kápuna bar drottningin gulan sjóhatt og eru skiptar skoðanir um þetta fataval.

En þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þessa regnkápu ber fyrir augu almennings, drottningin hefur skrýðst henni við hin ýmsu tækifæri á undanförnum árum, meðal annars virðist þetta vera sama flíkin og hún klæddist á Lýðveldishátíðinni 1994, þegar 50 ára lýðveldisafmæli landsins var fagnað á Þingvöllum.

Þessi mynd af Margréti Þórhildi Danadrottningu í regnkápunni umtöluðu birtist …
Þessi mynd af Margréti Þórhildi Danadrottningu í regnkápunni umtöluðu birtist í Morgunblaðinu 19. júní 1994 mbl.is/Morgunblaðið

Þá kom hún hingað ásamt öðrum norrænum þjóðhöfðingjum og hélt ávarp á Þingvöllum. Hún færði íslensku þjóðinni árnaðaróskir frá dönsku þjóðinni og sagði meðal annars að það væri mikilfengleg og ánægjuleg upplifun fyrir Danaprins og hana að taka þátt í hátíðarhöldum vegna fimmtíu ára afmælis íslenska lýðveldisins, eins og fram kemur í Morgunblaðinu 19. júní 1994. Við það tækifæri var tekin mynd af drottningunni í ræðustól á Þingvöllum. Á henni má sjá kápuna umdeildu og við hana ber hún barðastóran hatt.

Konungleg hönnun

Samkvæmt frétt danska dagblaðsins Politiken hannaði drottningin kápuna úr vaxdúk sem hún fékk sendan frá Englandi og fékk síðan aðstoð danska fatahönnuðarins Jørgen Bender við að sauma hann. „Hinir í konungsfjölskyldunni blikna í samanburði við Margréti drottningu,“ segir í fréttinni og þar segir líka að kápan sé drottningu svo kær, að hún hafi valið hana til að vera einn af þeim munum sem voru til sýnis í Frederiksborghöll árið 2015 á sýningu á fatnaði drottningar.

Tákn um sjálfstæði og lífsgleði

„Regnkápan er áhugaverð fyrir margra hluta sakir,“ segir í frétt Politiken. „Fyrir það fyrsta er þetta blómmynstraða efni bæði ljóðrænt og villt í senn. Mæti maður einstaklingi í blómmynstruðum klæðnaði getur maður gengið út frá því vísu að þar fer einhver sem veit hvernig hann vill haga lífi sínu. Og klæðnaði sínum. Drottningin sendir frá sér slík merki með regnkápunni sinni. Og þessi skilaboð verða þeim mun sterkari, þar sem krónprinshjónin (Friðrik krónprins og María eiginkona hans) eru með henni á myndinni og þau komast ekki með tærnar þar sem hún er með hælana í frumleika í klæðaburði. Af henni skín sjálfstæði og lífsgleði, en krónprinshjónin virðast í samanburði varkár og leiðinleg,“ segir í frétt Politiken.

Í drottningu blundar búningahönnuður

„Þetta er nánast dýrgripur,“ segir  Annemette Krakau, ritstjóri danska tímaritsins Billed-Bladet sem einkum flytur fréttir af þekktu og konungbornu fólki, í viðtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 þar sem regnkápan var til umfjöllunar. „Þetta er einstök flík og mjög Margrétarleg. Í henni blundar búningahönnuður,“ segir Krakau.

Margrét Þórhildur Danadrottning er lengst til vinstri. Síðan koma 6 …
Margrét Þórhildur Danadrottning er lengst til vinstri. Síðan koma 6 ára tvíburarnir Vincent og Josephine, sem eru börn Friðriks krónprins og Maríu krónprinsessu. Áfram frá vinstri eru systir þeirra Isabella prinsessa sem er 10 ára, María krónprinsessa, elsta barn hennar Kristján prins 11 ára og Friðrik krónprins er lengst til hægri. Instagram/Det danske kongehus

Hún segir að Margrét Þórhildur velji flíkina ekki síst með tilliti til þess að þannig sé hún afar sýnileg, en segist telja að ástæðurnar fyrir fatavalinu séu ekki síst mikil kímnigáfa drottningar.

Vakti litla eftirtekt hér á landi

Íslendingar virðast ekki hafa kippt sér mikið upp við regnkápu drottningar þegar hún klæddist henni hér fyrir 23 árum, að minnsta kosti er þess ekki getið í fréttum frá atburðinum að klæðaburður hennar hafi vakið eftirtekt.

En þó að margir finni regnkápunni allt til foráttu eru þeir líka fjölmargir sem segja Margréti Þórhildi Danadrottningu til fyrirmyndar hvað varðar nýtni. „Það er ánægjulegt hvað hún notar fötin sín í mörg ár,“ segir Dani nokkur í athugasemd við frétt um málið. „Það sýnir að hún er ekkert svo hátíðleg eftir allt saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert