Tveir starfsmenn á barn á leikskóla í Garðabæ

Leikskólabörn á ferð í Laugardalnum.
Leikskólabörn á ferð í Laugardalnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í Reykjavík eru allir leikskólar lokaðir yfir sumarið, í flestum tilfellum í fjórar vikur. Áður fyrr var leikskólinn Hagaborg opinn yfir sumarið en nú er honum lokað líkt og hinum. Foreldraráð leikskóla og stjórnendur taka ákvörðun um hvenær leikskólum er lokað.

Í Garðabæ gegnir öðru máli en þar eru leikskólarnir opnir allt árið. Mælst er til þess að börn taki fjögurra vikna sumarfrí en í Garðabæ er það foreldranna að ákvarða hvenær það frí er tekið. Þannig fá börnin sitt frí en foreldrarnir fá svigrúm til að skipuleggja sumarfrí saman.

„Slíkt val er mikilvægt til að auðvelda barnafjölskyldum að taka saman frí og hafa foreldrar verið mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag í gegnum árin. Einnig má taka fram að foreldrar hafa val um hvort þeir vilja hafa barnið sitt í leikskóla eða hjá dagforeldri og foreldrar greiða sama gjald til dagforeldra og vegna leikskóladvalar,“ segir Hulda Hauksdóttir, upplýsinga- og menningarfulltrúi í Garðabæ, og bætir hún við að þetta hafi lengi verið svona og hafi reynst mjög vel. Yfir sumartímann eru ráðnir sumarstarfsmenn á leikskólana til að aðstoða við að halda þeim opnum og er meiri áhersla lögð á útiveru á sumrin. Hugsunin á bak við það að hafa opið yfir sumarið er sú að hafa aukna þjónustu og er þetta talinn hluti af góðu leikskólastarfi, þar sem komið er til móts við fjölskyldur með þessum hætti og er starfið skipulagt út frá því. Foreldrar í Garðabæ eru taldir vera almennt ánægðir með leikskóla bæjarins og það kemur í ljós í árlegri íbúakönnun Gallup, en þar fá leikskólarnir háa einkunn.

Ásta Kristín Valgarðsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Kirkjubóli í Garðabæ, hefur unnið bæði innan Garðabæjar og utan og hefur því fengið að kynnast því að vinna á leikskóla sem er lokaður í fjórar vikur yfir sumarið og opinn allt árið. Hún telur það vera mjög góða þjónustu að leyfa foreldrum að ákveða sumarleyfið fyrir börnin sín. „Það er einnig kostur fyrir starfsfólk að fá að ráða sínu sumarfríi.“

Flokksstjóri ráðinn

Í Garðabænum eru ráðnir sumarstarfsmenn, auk þess sem ráðinn er flokksstjóri sem sér um sumarstarfsfólkið. Flokksstjórinn sér einnig um að fylgja elstu börnunum sem eru á leið í grunnskóla í frístundaheimili og aðlaga þau áður en þau stíga sín fyrstu skref þangað. „Um mitt sumar eru oft fá börn því margir foreldrar taka frí á sama tíma og eru börnin því sameinuð á eina deild. Júlí er vinsælasti mánuðurinn til að taka frí og nú eru börnin til að mynda helmingi færri en starfsfólkið. Því er tíminn nýttur til að þrífa leikskólann hátt og lágt en starfsmennirnir sjá um það á meðan rólegast er.“

Ásta telur að þegar fólk þekki ekki annað en að leikskólum sé lokað yfir sumartímann þá sé það ekki að velta fyrir sér hvort það geti valdið erfiðleikum hjá sumum foreldrum því margir fá ekki frí á sama tíma og börnin. Í Garðabæ séu foreldrar hinsvegar oft hissa á svo góðri þjónustu og séu almennt mjög ánægðir. Þó kostirnir séu margir eru alltaf einhverjir gallar, en það getur oft verið erfitt fyrir börnin þegar vinirnir eru í fríi og þegar deildirnar eru sameinaðar.

Mikið frelsi

Eva Björnsdóttir er móðir þriggja barna, sem eru í leikskólanum Ökrum í Garðabæ. „Það er mikið frelsi að fá að ráða sumarfríinu sjálf og ég veit til þess að fólk sé að púsla sumarfríinu sínu í kringum lokanir leikskólanna og takist ekki alltaf vel til,“ segir hún.

Þó henni finnist mjög gott að geta ráðið sumarfríinu sjálf þá finnst henni erfitt að þurfa að ákveða sumarfríið svo snemma árs eða í mars. Þar sem íslenska veðráttan býður oft ekki upp á marga góða sumardaga er erfitt að velja sér sumarfrí svona langt fram í tímann. Þegar Eva er spurð út í hvort henni finnist að önnur bæjarfélög ættu að taka þetta upp segir hún:

„Ég held að mönnun leikskólanna sé ástæða þess að önnur bæjarfélög séu með fastan lokunartíma yfir sumarið, en það er mikilvægt að geta púslað sumarfríinu þannig að það nýtist sem best, hagrætt því eins og foreldrunum hentar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert