50% starfsmanna orðið fyrir ofbeldi

Talsvert er um að starfsfólki barnarverndar sé hótað og jafnvel …
Talsvert er um að starfsfólki barnarverndar sé hótað og jafnvel nefnt að menn viti hvar börn þess séu í leikskóla. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Um helmingur barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík segist hafa orðið fyrir ofbeldi í starfi af hálfu aðstandenda barnanna. Samkvæmt nýlegri viðhorfskönnun, sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2, hafa 50% starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur orðið fyrir einhvers konar aðkasti, t.a.m. líkamlegu áreiti eðakynferðislegu.

Eru dæmi um að starfsmenn hætti að  mæta í vinnuna vegna þessa. Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá Barnaverndarstofu, segir í viðtali við Stöð 2, að þetta sé mikið áhyggjuefni og vill að gripið verði inn í.

Hún segir málin sjaldnast rata á borð lögreglu. Ástæðan sé m.a. að starfmenn þurfi sjálfir að tilkynna slík mál.

„Ef fólk verður fyrir hótunum eða einhverri áreitni þá tilkynnir starfsmaður sínum yfirmönnum, en ef það á að leita til lögreglu eða kæra slík mál þá þarf starfsmaðurinn að kæra það sjálfur. Það er heilmikið ferli og ekki víst að allir leggi í það ferðalag,“ segir Steinunn.

Talsvert sé um að fólki sé hótað og jafnvel nefnt að menn viti hvar það býr og hvar börn þess séu í leikskóla. „Það er mjög óþægilegt fyrir starfsmann að starfa undir slíkum ótta við að einhver komi og geri börnunum mein.“

Steinunn segir þá að álag á barnaverndarstarfsmenn hafi aukist mikið, en á síðasta ári bárust barnavernd rúmlega 9.000 tilkynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert