John Snorra gengur vel í vitlausu veðri

Fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson er kominn í búðir tvö á fjallinu K2 ásamt fjórum öðrum en hann freistar þess að verða fyrsti Íslendingurinn til að ná á topp fjallsins sem er eitt það hættulegasta í heimi. Tæplega þriðjungur þeirra sem reyna við fjallið láta lífið við það. Fjallið er næst­hæsta fjall í heimi, 8.611 metr­ar og staðsett á landa­mær­um Kína og Pakist­an.

Hann hélt af stað frá grunnbúðum fjallsins í gærkvöldi líkt og greint var frá hér á mbl.is og náði hópurinn í Camp tvö nýlega. Um níu klukkutíma ganga var á milli grunnbúða og búða tvö. „Hér er kolvitlaust veður, tíu til fimmtán metra skyggni en við ætlum samt að halda áfram á morgun upp í Camp þrjú,“ segir John Snorri í samtali við mbl.is.

Stefnt er að því að ná toppi fjallsins næsta miðvikudag ef veður er í lagi. „Við urðum að fara af stað í vonda veðrinu, glugginn virðist vera kannski tveir dagar ef við erum heppnir,“ segir hann um tækifærið til að ná upp á topp. 

Núna taka við einhverjir 17 klukkutímar í búðum tvö þar sem hópurinn heldur til í tjöldunum og reyna að ná yl í kroppinn, hvílast, nærast og drekka mikið af te og vatni. Þrír tímar eru í búðir þrjú en hópur John Snorra mun setja búðirnar upp á öðrum stað en algengast er að slá búðum þrjú upp. Hann segir að gamli staðurinn sé hættulegri þar sem oft hafi fallið snjóflóð á búðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert