Ekið um Þrengslin í dag

Það getur orðið heitt í malbikunarframkvæmdum yfir sumartímann.
Það getur orðið heitt í malbikunarframkvæmdum yfir sumartímann. mbl.is/Ernir

Vegagerðin heldur áfram í malbikunarframkvæmdum í dag og næstu daga víðsvegar um landið, meðal annars á hringvegi frá Holtavörðuheiði að Blönduósi, í Kömbunum á Suðurlandsvegi sem og við hringtorg í Hveragerði og við Ölfusárbrú. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. 

Lokað verður fyrir umferð til austurs um Suðurlandsveg og umferð beint um Þrengslaveg til kl. 21 í dag því stefnt er að því að malbika báðar akreinar niður Kambana á Hellisheiði, frá bílastæði á Kambabrún og 2 km niður brekkuna. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir til kl. 21 í kvöld en þær hófust í gærkvöldi kl. 21.  

Gera má ráð fyrir áframhaldandi malbikunarframkvæmdum á Suðurlandsvegi frá Kömbum og inn á Selfoss frá mánudagskvöldi 24. júlí til miðvikudagskvöldsins 26. júlí. Stefnt er á að malbika hringtorg við Hveragerði aðfaranótt þriðjudags og hringtorg við Ölfusárbrú aðfaranótt miðvikudags en þá verður Suðurlandsvegur lokaður við Ölfusárbrú. Þetta kemur einnig fram á vef Vegagerðarinnar. 

Vegfarendur eru beðnir að aka varlega um nýlögð svæði, virða stöðvunarskyldu og hraðatakmarkanir á vinnusvæðum til að lágmarka umferðartafir og tjón vegna steinkasts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert