Grasnytjar í hallæri og harðindum

Guðrún Bjarnadóttir jurtalitar ull samkvæmt gömlum hefðum á vinnustofu sinni, …
Guðrún Bjarnadóttir jurtalitar ull samkvæmt gömlum hefðum á vinnustofu sinni, Hespuhúsinu.

Hvað ef hér yrði ekki bara hrun heldur líka hallæri og harðindi, landið einangrað frá umheiminum og okkur væru allar utanaðkomandi bjargir bannaðar? Trúlega færu allir sem vettlingi gætu valdið að stunda sjálfsþurftarbúskap, sem m.a. fælist væntanlega í að leita sér ætis út um allar koppagrundir líkt og forfeðurnir og -mæðurnar gerðu. Í Borgfirðingabók, Ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2017, fjallar Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur um grasnytjar á landnámsöld og myrkum miðöldum.

Fjallagrös,“ svarar Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur umhugsunarlaust þegar hún er spurð hvaða íslenska villijurt væri mikilvægust ef fólk væri nauðbeygt til að draga sér sjálft björg í bú ellegar svelta. „Fjallagrösin eru steinefnarík, sýkladrepandi, innihalda kolvetni og hafa ásamt sauðkindinni efalítið haldið lífi í landanum frá landnámi og gegnum myrkar miðaldir,“ bætir hún við.

Að mörgu leyti er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig bláfátækt fólk tórði á þessum tíma þegar meira að segja kartöflur og grænmeti voru óþekkt fyrirbrigði. En setjum svo að hér brysti á með hallæri, landið lokaðist frá umheiminum og við þyrftum að vera sjálfum okkur nóg um nauðþurftir. Hvað gætum við lagt okkur til munns annað en dýraafurðir og grænmeti sem við lærðum loksins að rækta?

Í greininni Grasnytjar eftir Guðrúnu í Borgfirðingabók, Ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2017, rekur hún hvernig fólk nýtti sér villtar jurtir með margvíslegum hætti. Aðallega sér til matar, drykkjar og lækninga en líka sem byggingarefni, búsáhöld og verkfæri eða til að bæta híbýli sín svo fátt eitt sé talið. Og til að lita og fegra klæði sín, gleymum því ekki.

Vaðmálið soðið með grösum

Guðrún hefur jurtalitað ull samkvæmt gömlum hefðum á vinnustofu sinni Hespuhúsinu í Borgarfirði í mörg ár auk þess að starfa sem stundakennari í grasafræði og plöntugreiningu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þaðan útskrifaðist hún með meistaragráðu í náttúrufræði árið 2014, en fyrrnefnda grein byggir hún á útskriftarritgerð sinni, Hefðbundnar grasnytjar á Íslandi með samanburð við Noreg og nágrannalönd.

„Til litunar voru fjallagrös notuð til að búa til gulan lit en þá var vaðmálið soðið með grösunum í járnpotti. Fjallagrös gáfu einnig rauðan lit með aðstoð keytu [staðið hland] en það var mikil fyrirhöfn og þurfti mikla keytu og langan tíma. Rauði liturinn gekk undir nafninu íslenskur hárauði eða kúahlandsrauður og var ekki fallegur, entist illa og lyktaði illa,“ segir Guðrún í greininni.

Hún veit miklu meira um fjallagrös en sem viðkemur litun. „Landnemarnir frá Noregi þekktu fjallagrösin frá heimalandi sínu, en þar voru þau ekki nærri jafn mikilvæg og þau urðu síðar til matar á Íslandi. Smám saman eftir að veðurfar versnaði í lok 13. aldar lagðist akuryrkja að mestu af hér á landi og þá fóru menn að nýta fjallagrösin meira til matar sem kolvetnisgjafa ásamt sölvum úr fjörunni. Íslendingar kunnu að matreiða fjallagrösin og ná úr þeim beiskjuefnunum. Þeir notuðu þau í grauta með vatni, mjólk eða skyri,“ segir Guðrún og lýsir matreiðslunni:

Grasamjólk með sykri, namminamm


„Grasamjólk var soðin með sykri og þótti hið mesta hnossgæti. Grös og vatn voru soðin saman þar til allt hljóp saman og úr varð nokkurs konar grasahlaup eða grasalím. Grasaystingur var gerður með mjólk og var súrmjólk sett saman við í lokin til að ysta.“ Fjallagrösin voru einnig notuð í slátur til að auka endingartímann og höfð í brauð í stað korns til að auka geymsluþolið, en þá voru grösin söxuð og soðin áður en þau voru sett í brauðið.

Öfugt við fjallagrösin nýttu landnemarnir frá Noregi ætihvönnina mikið sér til matar. „Ætihvönnin var ein helsta nytjajurt Norðmanna og tengdist jafnframt frjósemishjátrú þeirra, sem aldrei náði þó fótfestu hér á landi. Þeir hefðu ábyggilega ekki lagt af stað yfir hafið án þess að hafa hvönnina meðferðis, enda vissu þeir ekki að hér var feikinóg af henni fyrir,“ segir Guðrún og tilnefnir ætihvönnina sem næstmikilvægustu villijurtina á eftir fjallagrösunum – ef til hallæris kæmi.

„Ætihvönnin var hin mesta búbót og allir hlutar hennar ætir og nýtanlegir á einhvern hátt. Menn söfnuðu rótum á haustin eða snemmsumars, þegar hún var orkumest. Ræturnar voru geymdar á köldum stað, til dæmis undir gólffjölum í útihúsum eða grafnar í jörð undir frost. Þær voru étnar hráar með harðfiski, smjöri eða tólg eða bara einar sér. Stundum voru þær sneiddar niður og soðnar í undanrennu og gerður kryddaður mjólkurdrykkur. Ræturnar voru settar í súr og gott þótti að sykursalta þær. Einnig mátti nota þær til brauðgerðar. Hins vegar nýttu Norðmenn ræturnar meira í te til heilsubótar og tuggðu þær sem vörn gegn farsóttum. Hvannablöðin voru svo notuð í súpur og sósur til að gefa gott bragð og einnig í grauta.“

Korndrjólasveppurinn


Þótt Guðrún sé hafsjór fróðleiks um íslenskar jurtir viðurkennir hún að hafa lítið prófað að matreiða úr fjallagrösum, ætihvönn, njólum eða öðrum villtum plöntum. „Ég datt í jurtalitunina,“ útskýrir hún brosandi. Næringargildi plantnanna og mögulegan lækningamátt segir hún allt aðra ellu og hefði kallað á öllu ítarlegri rannsóknir en hún gerði í tengslum við meistararitgerð sína. Sögu jurtanna og hvernig þær voru nýttar til forna þekkir hún þó mætavel. Áfram skal haldið. Melgresið næst.

„Melgresið var notað sem kornmeti á Austurlandi og í Skaftafellssýslum, en einungis þar nær það fullum þroska til að það sé hægt. Eitraður korndrjólasveppur var hins vegar fylgikvilli nytjanna með tilheyrandi sveppasýkingu. Fólk gat orðið fárveikt af að neyta brauðs úr sýktu korni og jafnvel fengið drep í útlimi vegna blóðrásartruflana. Þótt sumir hafi verið svo óheppnir að veikjast varð fólk að stóla á kornmetið sér til matar. Í bókmenntum fyrri tíma er oft getið um sjúkdóminn sem hinn heilaga eld, sem aðeins væri hægt að lækna með guðsótta og góðum siðum.“

Annars staðar á landinu vex melgresið víða í foksandi við ströndina og voru nytjarnar þá með öðrum hætti, til dæmis voru stilkarnir notaðir sem tróð undir torfþökin og úr rótunum var meðal annars unnið saumband eða þráður, sem var nýttur í beisli, girðinga- og klyfberabönd, reipi, hnakka og fleira. Melgresi er ennþá notað í landgræðslu á Íslandi.

Hugvit og stöðnun


Guðrúnu virðist fólk hafa verið býsna hugvitssamt að nýta grös og aðrar jurtir í matargerð og annað fram eftir 13. öldinni, en síðan hafi neyslumynstrið lítið breyst þar til á upplýsingaöld að menn fóru að prófa sig áfram með nýjar aðferðir og fleiri tegundir auk þess sem Björn Halldórsson í Sauðlauksdal opnaði augu manna fyrir ræktun og nytjum jurta með bók sinni Grasnytjar árið 1784.

„Forfeðurnir og -mæðurnar voru auðvitað ekki vel að sér í efnafræði, vissu ekki endilega að kolvetni voru þeim nauðsynleg svo sjálfsagt hefur eðlishvötin knúið þau áfram. Þrátt fyrir landlægan skyrbjúg kunnu menn ekki alls staðar á landinu að nýta sér skarfakálið, sem er uppfullt af c-vítamíni, þótt það væri víða talin mikilvæg nytjajurt.“

Í greininni í Borgfirðingabók fjallar Guðrún um fjölda annarra villtra jurta og nytjar þeirra. Tilgangur hennar er að opna augu fólks fyrir náttúrunni í kringum okkur, auka virðingu fyrir henni og rifja upp hve mikilvæg hún var okkur á öldum áður. Við lesturinn vaknar efalítið hjá mörgum spurningin: Hvað ef við værum neydd til að hverfa aftur til lífshátta forfeðranna og -mæðranna? Kannski sérstaklega hjá þeim sem lásu Eyland, skáldsögu eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, sem kom út fyrir jólin og dregur upp býsna hrollvekjandi mynd af lífi nútímafólks á einangraðri eyju í norðri; Íslandi. Bjargræði á slíkum tímum gæti falist í þekkingu á því sem nýta má úr grösum náttúrunnar, sem til allrar hamingju eru aðallega krydd í tilveruna í raunveruleikanum.

„Áttu börn og buru, grófu rætur og muru“

Einir vex víða um land og var notaður sem reykelsi til að bæta lykt í borgfirskum baðstofum. Hlandblautur var hann notaður við ofsakláða og á Alþingi til að hýða afbrotamenn.

Ber. Krækiber og bláber voru etin fersk, úr þeim var búinn til safi og þau geymd til vetrarins í skyr. Krækilyng var notað til kyndingar með taði undan sauðfé og einnig haft í tróð í hús og undir sængur í rúm. Talið var að lyngið héldi lús og flóm í skefjum.

Víðir. Fræull víðisins var safnað og hún notuð til að leggja á sár. Börkurinn er ríkur af salissýru og tannínum og talinn hafa verkjastillandi áhrif.

Horblaðka var notuð til að bragðbæta öl, en rótin reykt í stað tóbaks í Rangárvallasýslu.

Njóli og túnsúra voru notuð sem kálsaup, sem er samheiti yfir graut með blaðmiklum c-vítamínríkum tegundum, t.d. skarfakáli, sigurskúfum og fjöruarfa. Túnsúran var einnig notuð í grauta, stöppur og drykki.

Fífur. Fræull fífunnar var spunnin milli fingra með tólg til að gera kveiki í lýsislampa.

Lyfjagras var notað til að hleypa mjólk til skyrgerðar og við júgurbólgu.

Nauðþurftarmatur. Rætur geldingahnapps, lambagrass og tágamuru voru grafnar upp og borðaðar í harðindum. Algjör nauðþurftarmatur, eins og lesa má úr gömlum máltækjum: „Alt er það matr, sem í magann kemr, nema holtarót og harðasægjur,“ segir eitt, en rætur geldingahnappsins voru kallaðar harðadægjur. Fátækt fólk á Austurlandi notaði blómknúppa geldingahnappsins í púðatróð. „Áttu börn og buru, grófu rætur og muru“ gefur í skyn fátækt og barnmegð, en með muru er átt við rætur tágamuru.

Rætur geldingahnapps voru grafnar upp og borðaðar í harðindum.
Rætur geldingahnapps voru grafnar upp og borðaðar í harðindum. mbl.is/ÞÖK
Ásamt sauðkindinni hafa fjallagrös trúlega haldið lífi í Íslendingum áður …
Ásamt sauðkindinni hafa fjallagrös trúlega haldið lífi í Íslendingum áður fyrr, enda steinefnarík, sýkladrepandi og innihalda kolvetni. unknown, , , , ,(, ,Wikipedia/Hedwig Storch
Einungis á Austurlandi og í Skaftafellssýslum nær melurinn nægilegum þroska …
Einungis á Austurlandi og í Skaftafellssýslum nær melurinn nægilegum þroska til að hægt sé að nota hann sem kornmeti. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert