Myndaði kvenkyns gesti laugarinnar á laun

Sundlaug Sauðárkróks. Starfsmaður laugarinnar er nú til rannsóknar hjá lögreglu …
Sundlaug Sauðárkróks. Starfsmaður laugarinnar er nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að hafa myndað kvenkynsgesti á laun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfsmaður sundlaugarinnar á Sauðárkróki er nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að hafa tekið ljósmyndir af kvenkyns gestum laugarinnar á laun.

Þetta staðfestir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, í samtali við mbl.is. „Við erum með svona mál í rannsókn hjá okkur,“ segir Stefán Vagn og kveður það hafa komið inn á borð lögregluembættisins í síðustu viku.

Hann vill ekki gefa upp að svo stöddu hvort umræddar myndir hafi verið teknar af gestum í fataklefum sundlaugarinnar eða við laugina. DV, sem greindi fyrst frá málinu, segist hins vegar hafa heimildir fyrir því að umræddar myndir hafi verið teknar í fataklefum.

Lögreglan á Sauðárkróki nýtur aðstoðar lögreglunnar á Akureyri við rannsókn málsins, en gerð hefur verið húsleit hjá hinum grunaða vegna málsins. „Við erum búin að leggja hald á tölvur og annan tækjabúnað í tengslum við rannsóknina,“ segir Stefán Vagn segir þau gögn verið send til Akureyrar til rannsóknar.

Hann vill ekki tjá sig um það hvort hinn grunaði hafi verið fastráðinn við sundlaugina, eða hvort viðkomandi hafi unnið þar lengi. Samkvæmt sínum upplýsingum sé viðkomandi einstaklingur hins vegar ekki lengur starfandi þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert