Sól og 25 stig í vikunni

Gera má ráð fyrir sól og blíðu í vikunni.
Gera má ráð fyrir sól og blíðu í vikunni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sól og hiti verður á landinu í dag og á morgun, og gera má ráð fyrir allt að 25 stiga hita þar sem best lætur. Verður það á Norðausturlandi, þar sem hiti var kominn í 23 stig klukkan 11 í morgun. Á höfuðborgarsvæðinu er hiti kominn í 17 gráður.

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir kortin líta vel út næstu daga. „Á höfuðborgarsvæðinu verður hlýtt og sólin mun skína með köflum. Við erum að fá hita upp undir 20 stig á næstu dögum,“ segir hún. „Svo fer vestari helmingur landsins að fá meiri sól. Það verður mjög heitt á Norðausturlandi og allt að 25 stig þar sem best lætur.“

Mun svo snúast í austlæga átt og norðaustlæga þegar líður að helginni. Um helgina má gera ráð fyrir rigningu á Austurlandi, og fremur skýjað verður fyrir norðan. „Sunnan- og vestanlands ætti að vera bjart og skýjað með köflum, en að mestu þurrt,“ segir Helga og bætir við að hiti geti farið í 20 gráður á Suðurlandi um helgina.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Austlæg átt, 5-13 en 10-18 með suðurströndinni. Víða léttskýjað, en þokuloft við austurströndina. Hiti 8 til 24 stig, hlýjast vestanlands, en svalast í þokuloftinu. 

Á fimmtudag:
Norðaustlæg átt, 5-15, hvassast suðaustan til. Skýjað um landið austanvert og við norðvesturströndina og dálítil rigning austast, en þurrt og bjart að mestu suðvestan- og vestanlands. Hiti 8 til 22 stig, hlýjast suðvestan til. 

Á föstudag:
Norðaustlæg átt 5-13 m/s. Skýjað og sums staðar dálítil væta, en skýjað með köflum um landið suðvestanvert og yfirleitt þurrt. Heldur kólnandi veður. 

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir norðlæga átt, skýjað og víða þokuloft norðan til, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt suðvestantil, en rigning fyrir austan. Hiti 6 til 18 stig, hlýjast sunnanlands.

Sjá veður­vef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert